SAGA HÚSANA fjallar um hús sem við getum öll lært af, jafnt húsbyggjendur þegar þeir taka sín fyrstu skref og ákveða að fara út í það að byggja, sem og arkitektar við að koma til móts við og virða líf og lífshætti verðandi húsbyggjenda.

Saga húsanna samanstendur af röð greina sem eiga það sameiganlegt að varpa ljósi á þær persónulegu forsendur sem standa að baki mikilvægra húsa í alþjóðlegu samhengi. Hvernig getur arkitekt hannað hús fyrir unga systur sína sem nýlega er orðin ekkja? Upp á hvað getur arkitekt boðið þegar viðskiptavinur í hjólastól biður um flókna hönnun og að húsið verði hans eiginn heimur? Eða þá þegar listunnendur gefa arkitektinum fullt og ótakmarkað frelsi við hönnunina? Hvaða skýring er á því að nágrannarnir skjóta á hús arkiteks sem nú er hvað mest virtur á heimsvísu? Þannig verður reynt að fylla upp í tómarúmið sem sniðgengið er af svo mörgum erlendum byggingarlistabókum en með því að hafna svo persónulegum upptökum þá gleymist það hversu margir þættir hafa áhrif á húsagerðina. Húsin til umfjöllunar hafa þar af leiðandi verið valin vegna einstakra eiginleika sinna. Auk þess að hafa undir höndum góða byggingarlist og virtan arkitekt, hafa viðskiptavinirnir tilfinningabundna sögu sem verkefnið er síðan spunnið úr. Saga húsanna býr yfir fræðandi heimildum um viðskiptavinina, óskir þeirra og þarfir, og án þeirra getur maður ekki skilið hina byggingarlegu niðurstöðu.

Hús samtímans
Frá frumkofa Laugier, sem greinir frá fyrstu húsagerðinni, til húsa arkitektanna Ábalos og Herreros sem grundvallast af sömu hugmyndarfræðinni og Swatch klukkurnar, sem og Hús Framtíðarinnar, verk eftir hjónin Alison og Peter Smithson, hafa rannsóknir á húsum átt sér stað í gegnum aldirnar allt frá því þau komu fyrst fram á sjónarsviðið. Fyrir utan stíltegundir og tískufyrirbrigði, þá fjallar Saga húsanna um tilfinningar og ástríður sem gerir umfjöllun um húsin mögulega óháð þeim tíma sem þau voru gerð á. Tekin eru dæmi um hús sem alltaf verða sígild vegna þess að þau höfða til persónulegra eiginleika sérhvers okkar.
Úrvinnsla áætlunarinnar fyrir húsið sem húsbyggjendurnir koma í framkvæmd, er ferli sem snýst við seinna, þegar húsið mótar líf íbúanna. Húsgögn og minjagripir, erfða- og safngripir eru allt tákn um hver við erum og hver við viljum vera. Það má segja að á meðan framhliðar húsanna mynda innra rými borgarinnar og sýna svipbrigði hennar þá er innra rými húsanna ytra byrði íbúanna. Þar af leiðandi á saga hússins uppruna sinn í margbreytileika þjóðfélagsins sem það byggir, menntun og hugmyndaflugi arkitektsins og lífi notendanna. Í stuttu máli, miðað verður að því að gera tilkall til sterkari tengsla milli húsbyggjandans og arkitektsins.
Efnið er allt yfirfarið og samþykkt af arkitektum húsanna. Greinarflokkurinn inniheldur ritgerðir um hús, nýlega byggð, þó að eitt þeirra hafi nýverið verið jafnað við jörðu. Aðeins í einu tilfelli var húsið ekki byggt, eftir arkitektinn Enric Miralles. Andlát hans kom í veg fyrir það.

Myndatexti:
A. Marc-Antoine Laugier, Frumkofinn, úr Ritgerð um byggingarlist, (Paris 1753)
B. Hús Framtíðarinnar eftir Alison og Peter Smithson var sýnd á árlegri sýningu sem nefnd var Draumahúsið og hún var skipulögð árið 1956 af dagblaðinu The Daily Mail í London. Þetta var fjöldaframleitt hús sem lagði fram spádóma um hvað yrði á boðstólnum eftir tuttugu og fimm ár.
C. Húsin AH eftir arkitektana Iñaki Ábalos og Juan Herreros (1994) voru andsvör við hinu hefðbundna húsi og breyttu ímynd sinni eftir því í hvaða umhverfi þau voru.
D. Framhliðar húsanna eru innra rými borgarinnar. Mynd frá miðbæ Reykjavíkur.
E. Hús/vinnustofa arkitektsins John Soane byggt í London í byrjun 19. aldar. Innra rými hússins endurspeglar líf íbúanna.

LÍTIÐ HÚS FYRIR KOLONIHAVEN, EFTIR ENRIC MIRALLES

Spænski arkitektinn Enric Miralles var beðinn um að hanna lítið timburhús nálægt Kaupmannahöfn árið 1996. Verkefni, sem hann vann með eiginkonu sinni Benedetta Tagliabue, einnig arkitekt. Útkoman varð hús, sem endurspeglaði tímaskeið fjölskyldu.
Þessi grein er sú eina í flokknum saga húsanna sem fjallar um verkefni sem hefur ekki verið byggt. Miralles lést nýverið úr krabbameini sem kom í veg fyrir að honum tækist að ljúka við byggingu hússins. Við tileinkum honum þennann greinaflokk.


Hús tímans byggt
Það er til gömul mið-evrópsk hefð fyrir því að byggja lítil hús, nokkurs konar klefa, í grænmetisgörðum í útjarðri þéttýlis. Þetta húsaskipulag nefnist Kolonihaven á dönsku en eina notagildi þess er að veita eigendunum skjól á meðan þeir njóta tímans úti í náttúrunni.
Kolonihaven nálægt Kaupmannahöfn samanstendur af margvíslegum húsum vegna þess að mjög ólíkir en frægir arkitektar voru valdir til þess að hanna á þessu svæði. Hjónin Miralles og Tagliabue hófu verkefnið með það fyrir augum að ná tökum á tímaskeiðinu. Út frá þessum byrjunarreit, útskýrðu arkitektarnir,"varð húsið að dagatali". Það var staður til þess að finna fyrir því hvað tímanum leið, á meðan notið væri náttúrunnar, foreldrarnir töluðu saman við hringborðið á meðan börnin voru að leik. Auk teikninga og líkana, þá lögðu arkitektarnir fram þýskt dagatal til frekari útskýringa. Þetta dagatal sýndi blóm mismunandi mánuða ársins, og tímasetningar hvenær blóm þeirra opnuðust og lokuðust á daginn: blóm kaffifífilsins í febrúar og vatnaliljur júnímánaðar voru opin á morgnanna en blóm morgunfrúarinnar í september voru opin allann daginn, sem og nellikurnar í desember.
Rás tímans var líka skráð þegar uppdrátturinn var skissaður af litla húsinu. Enric og Benedetta réttu litlu dóttur sinni lítinn barnastól sem hún byrjaði að leika sér að, tók sín fyrstu skref og hreyfði hann úr stað. Líkt og hann væri afleiðing teikninga af þessum hreyfingum, þá ól uppdrátturinn af sér rými úr timburburðargrind sem vafði sig utan um stúlkuna og stólinn eins og klæði, og, utan um hina fullorðnu og borðið þeirra.
Á þessu augnabliki komu arkitektarnir með gamla teikningu eftir arkitektinn Le Corbusier þar sem stúlka biður fullorðinn mann að leika við sig, og býður honum að koma inn um litlar dyr og inn í heim, búinn til eftir hennar hlutföllum. Húsið í Kolonihaven er breytilegt í hæð. Mjög lítil lofthæð er í barnaherberginu en hún verður mun hærri í setustofunni fyrir fullorðna. Þegar horft er á þverskurð af húsinu, þá nær það taki á rás tímans - húsið stækkar með íbúunum, frá því að vera barn og í það að verða fullorðinn.

1955-2000
Inntak þessa verkefnis um lítið skjólhús felur í sér umfjöllum um rás tímans og lífið sjálft. Hlutverk þess er einmitt það, og ekkert annað. Ef það er rétt að maður geti lagt mat á arkitekt sem byggist á úrlausn verkefnis fyrir einbýlishús, þá getur hönnun lítils timburhúss í hverfi sem Kolonihaven verið mælistika á bæði arkitektinn sem arkitekt og sem manneskju. Það er verkefni þar sem maður getur metið persónuleika arkitektsins. Þegar honum er úthlutað verkefni sem þessu þá er leitast eftir viðhorfi hans til lífsins og, að hafa tilfinningu fyrir tímanum.
Ef til vill er þetta ástæðan fyrir því að Enric Miralles taldi litlu dóttur sína með í þróun hússins fyrir Kolonihaven. Hann nefndi hana sem einn af samstarfsmönnum sínum og bætti nafni hennar á nafnalista vinnuhópsins. Hér var í senn verið að rugla saman reitum á einkalífinu og atvinnunni, eitthvað sem Enric hafði alltaf gert.

Myndatexti:
1. Enric Miralles (1955-2000) arkitekt.
2. "Húsið verður að dagatali."
3. Enric vildi alltaf nota líkingarmál þegar hann útskýrði verkefnin sín. Hér varð húsið í Kolonihaven "agnarlítill steinn í landslagi dvergtrjáa."
4. Smávaxinn stúlka tekur sín fyrstu skref með hjálp lítils barnastóls.
5. Litla húsið hefur tvo innganga. Annar þeirra er örlítill fyrir barnið.
6. Líkan úr sápu.
7. Húsið var eins og klæði sem vafði sig utan um hreyfingar barnsins og foreldranna.

'MAISON À BORDEAUX', EFTIR REM KOOLHAASVel efnuð hjón sem bjuggu með börnum sínum þremur í mjög gömlu og fallegu húsi í Bordeaux í Frakklandi nutu þess. Í mörg ár að hugsa um að byggja sér nýtt hús.Þau skemmtu sér við að ímynda sér form og liti og spurðu sig hver arkitektinn gæti verkið. Skyndilega varð eiginmaðurinn fyrir bílslysi þar sem litlu munaði að hann léti lífið. Hann er nú bundinn hjólstól og þar með breyttust gamla húsið og miðaldarborgin Bordeaux í fangelsi. Fjölskyldan byrjaði aftur að hugsa um nýja húsið en í þetta skiptið með allt öðrum hætti.

Streymi í nýja húsinu.
Hjónin keyptu hæð með víðsýni yfir borgina mæltu sér mót við hollenska arkitektsins Rem Koolhaas árið 1994. "Andstætt því sem þú gætir ímyndað þér," sagði eiginmaðurinn við arkitektinn, "þá vil ég ekki einfalt hús. Ég vil flókið hús vegna þess að það mun ákvarða heim minn".
Í stað þess að hanna hús á einni hæð sem myndi auðvelda hreyfingar hjólastólsins, kom arkitektinn þeim á óvart með hugmynd að húsi á þremur hæðum, hverri ofan á annarri. Neðsta hæðin, hálfhöggvin inn í hlíðina, samanstendur af eldhúsi, vínkjallara og sjónvarpsherbergi og opnast út á húsagarð. Svefnherbergi fjölskyldunnar eru á annarri hæð, sem byggð er sem dökkvínrauður steinsteyptur kassi. Á milli þessarra hæða breiðir dagstofan úr sér, en veggir hennar eru gerðir úr gleri og er útsýnis notið yfir dal Garona ánnar se sýnir líka skýrar útlínur Bourdeaux.
Hjólastóllinn hefur aðgang að þessum þremur hæðum með hreyfanlegu lyftugólf á stærð við herbergi sem er í rauninni vel búin skrifstofa. Vegna lóðréttra hreyfinga sinna verður lyftugólfið hluti af eldhúsinu þegar það er á grunnhæðinni, sameinast álgólfinu á miðhæðinni og skapar vinnuaðstöðu í svefnherbergi hjónanna á efstu hæðinni. Á sama hátt og hægt væri að túlka hjólastólinn sem framlenging líkamans, verður hreyfanlegt lyftugólfið sem arkitektinn útbjó fyrir manninn órjúfanlegur hluti af honum. Þetta gefur honum meiri möguleika til hreyfinga um húsið en nokkrum öðrum meðlimi fjölskyldunnar, sem þýðir að hann er einn um það að hafa aðgang að herbergjum eins og vínkjallaranum eða bókahillunum gerðum úr plastefninu polycarbonate sem spanna allar þrjár hæðirnar og fylgja ferðum lyftugólfsins.

Húsið upplifað.
Koolhass hannaði flókið hús í eðli sínu og fór út fyrir mörk hins hefðbundna í öllum atriðum. Sem dæmi, einn af þeim þremur fótum sem öll efri hæð hússins hvílir á er staðsettur til hliðar við miðju, hólkur sem geymir hringstiga hússins. Þó að þessi tilfærsla valdi ójafnvægi í húsinu, þá nær það því aftur með tilstilli sjáanlegs stálbita sem komið er fyrir yfir húsið og festur við lóðina sem togar í streng til jafnfætis. Spurningin sem kemur fyrst upp í huga gestsins er : Hvað gerist ef klippt er á strenginn? Koolhaas hefur komið fram með grind sem, jafnt sem sjálf reynsla húsbyggjandans, hangir á bláþræði.
Þetta fyrirkomulag hússins gefur miðhæðinni ótruflað útsýni frá þessu rými og yfir landslagið, áhrif sem magnast við stálslípaðann hólk hringstigans þegar svo virðist sem hann hverfi inn í speglmynd landslagsins. Miðhæðin er einsog verönd þar sem efsta hæðin flýtur yfir, hún er rými úr gleri sem gerir íbúunum kleift að flækja náttúruna úti við innanhúss rýmið. Á hinn bóginn, fær sama útsýni á efstu hæðinni allt aðra meðferð. Það er afmarkað og fyrirfram ákveðið með því að vera rammað inn af hringlaga gluggunum sem staðsettir eru eftir því hvort viðkomandi stendur, situr eða liggur.
Inn í húsinu upplifir fjölskyldan túlkanir Koolhaas á óstöðugleika og tvíræðni lífsins. Með tilliti til eiginmannsins, þá hefur hann upplifað þennan óstöðugleika, og sem nú er orðinn hluti af honum sjálfum. Á sama veg og naflastrengurinn er eignaður bæði móður og fóstri, og flytur næringu til afkvæmisins, þá tengir lyftugólfið eiginmanninn við húsið og færir honum frelsi.

Ljósmyndir: Hans Werlemann.
Myndatexti:
1. Rem Koolhaas (f. 1944) (ljósmynd Sanne Peper)
2. Vinnumódel af 'Maison à Bordeaux'.
3. Arkitektinn kom fjölskyldunni á óvart með hugmynd að húsi á þremur hæðum, hverri ofan á annarri.
4. Hjólastóllinn hefur aðgang að öllum þremur hæðunum með hreyfanlegum lyftugólf á stærð við herbergi (3.5m x 3m).
5. Bókahillur þriggja hæða há mætir þörfum hreyfanlegri skrifstofunni.
6. Miðhæðin er einsog glerhýsi sem gerir íbúunum kleift að flækja náttúruna úti við innanhúss rýmið.

SANTOS MIRANDA HÚSIÐ, EFTIR ALVARO SIZA
Portúgalski arkitektinn Alvaro Siza var beðinn um að hanna hús fyrir rithöfund í Matosinhos, Oporto snemma á 6. áratugnum. Síðan þá hefur húsið tvisvar skipt um eigendur en Siza hefur samt sem áður haldið áfram að vera arkitektinn ábyrgur fyrir endurbætum og að klæða það húsgögnum. Vegna utanaðkomandi áhrifa uppfyllir húsið núna öll þau skilyrði til þess að vera safn arkitektsins sjálfs.

Eigendur hússins.
Árið 1962 var Alvaro Siza beðinn, þá ungur maður, að hanna hús í þéttu hverfi lítilla lóða fyrir rithöfundinn Ferreira da Costa. Costa leitaði eftir næði og friðsæld og bað um daufa og óbeina lýsingu sem hentaði vel rithöfundastörfum. Lausn Siza fól í sér tveggja hæða hús með þakgluggum sem gáfu birtu ofan frá en hliðar þess voru gluggalausar. Hann vitnaði í hefðbundna húsagerð með því að setja skáhallandi flísalögð þök og múrhúðaða burðarveggi, sem leiddi af sér einfaldar rýmdir og sýndi mjög vönduð vinnubrögð við öll göt (glugga og hurðir).
Húsið hafði eigandaskipti árið 1987 og bað nýi eigandinn, Miranda Dos Santos, Siza um að gera nokkrar endurbætur. Þær fólust í því að opna fyrir glugga sem myndi bregðast gegn daufri birtunni frá þakgluggunum. Þessi nýju göt voru gerð á annan hátt en í upprunalega húsinu, eitthvað sem gaf þróun arkitektsins sjálfs til kynna. Hann bætti við nýju byggingarefni, hvítmáluðum viðarlistum í hvíta gluggakarmana sem voru gerðir úr marmara.
Stuttu síðar, fór húsið til sonar Santos, verkfræðings sem bað Siza um að halda áfram störfum sínum við húsið en í þetta sinn að hanna fyrir það húsgögnin. Hann bað Siza ekki um 'listræna' hluti, heldur frekar að uppfylla ákveðnar þarfir.

Umbreyting hússins.
Á þessu langa tímabili, höfðu aðstæður Siza breyst og hann orðinn virtur um allan heim og að sama skapi upptekinn og eftirsóttur. Til þess að ná því takmarki að verkinu yrði lokið, var þessi síðasti eigandi hússins ákveðinn í að gefa Siza engann frið og hreinlega elti hann árum saman. Sonur Santos sagðist sjálfur bera " alveg einstaka, ég gæti sagt nærri óhóflega, aðdáun á arkitektinum og verkum hans" - sem hann sýndi með því að leita arkitektinn uppi við vinnu, á heimili sínu, og jafvel á flugvellinum til þess að krækja í skissu, hugmynd, leiðréttingu eða samþykki hans.
Siza hefur nú þegar hannað fyrir húsið eftirfarandi ítarlega lista húsgagna: armlampa úr stáli bæði fyrir vegg og gólf, borðlampa með skermi sem formaður er eftir þunnri sveigðri viðarplötu, borðstofuborð með glerplötu afmarkaðri af viðarkanti, nokkrar kommóður úr kirsuberjaviði en handföngin dragast sjálfkrafa inn vegna mótvægis innan frá, skápa undir bolla og diska en hliðar þeirra eru gerðar úr ljósum marmara sem spilar sem mótvægi gegn mahóníplötunum, kringlótt marmaraborð með stálfæti fyrir miðju, stóla með þrjá fætur en setan mjókkar í annan endann til þess að nýta betur rýmið við kringlótt borðið, glerjaða bókaskápa með skrifborði, vegglampa sem er einfaldlega búinn til með því að sveigja slétta viðarplötu, gólflampa þar sem skermurinn er hálfgegnsær marmara diskur, kommóðu sem virkar sem höfuðgafl og grind rúmsins, snyrtiborð, náttborðskommóður með einföldum lampaskermum, náttborð með einni skúffu, heilt samsafn fylgihluta fyrir baðherbergið, og jafnvel hönnun á tveimur ólíkum gerðum af lyklum fyrir hurðir og skápa.
Núna eru nær öll húsgögnin komin í fjöldaframleiðslu, eftirmyndirnar hafa náð vinsældum og þær eru jafnvel að finna á ýmsum hönnunarsöfnum. Vegna þessarra utanaðkomandi áhrifa hefur viðhorfið gagnvart húsinu sjálfu breyst. Það sem upphaflega var hugsað sem einfaldar lausnir til að innrétta húsið varð að frumlegum fyrirmyndum. Þetta gerir húsið að safni húsgagnahönnunar Siza í hans eigin húsagerð. Og, eins og gerist við upphaf yfirlitssýninga, þá heilsar andlitsmynd arkitektsins við innganginn.

Ljósmyndir: Luis Seixas Ferreira Alves
Myndatexti
1. Álvaro Siza Vieira (f. 1933)
2. Grunnteikning af húsi Miranda Santos.
3. Einfaldar rýmdir sem sýna mjög vönduð vinnubrögð við öll göt veggjanna.
4. Leðursófi sem einnig var notaður fyrir Boa Vista veitingahúsið, armlampi úr stáli og hliðarborð allt eftir Siza.
5. Skápar undir bolla og diska en hliðar þeirra eru gerðar úr ljósum marmara sem spilar sem mótvægi gegn mahóníplötunum.
6. Hönnun á tveimur ólíkum gerðum af lyklum fyrir hurðir og skápa..
7. Horft inn ganginn með húsgögnum arkiteksins og andlitsmynd hans.

VILLA ANBAR Í DAMMAM, EFTIR PETER BARBER

Rómantískur skáldsagnahöfundur frá Saudi Ararbíu bað breska arkitektinn Peter Barber árið 1992 að hanna hús fyrir sig í borginni Damman. Frú Anbar var ekkja sem bjó hálft árið í London en hinn helming ársins dvaldi hún í heimalandi sínu. Viðhorf hennar til Austrænnar menningar mótuðust því af alþjóðlegum áhrifum. Aðstæður Barbers, sem vestræns arkiteks í Saudi Arabíu, knúðu hann á hinn bóginn til að kynna sér vel margbreytileika íslamskrar menningar.

Innra rými Saudi Arabískra heimila
Hefðbundin skipan innri rýma Saudi arabískra heimila gerir greinilega ráð fyrir hefðbundinni stéttaskiptingu milli karla og kvenna. Þetta viðkvæma málefni birtist í því að aðgengi að húsinu er tvískipt en einnig er aðskilnaður kynjanna ítrekaður í innra skipulagi hússins á þann hátt að körlum er ætluð sér dagstofa og konum önnur. Þessi aðskilnaður er enn frekar útfærður í samskiptum þjónustuliðs við fjölskyldumeðlimi, og tenglsum fjölskyldunnar við ytra umhverfi, og kemur það fram í því að rýmin verða alltaf meira og meira persónubundnari því innar sem farið er í húsið þar til staðnæmst er í húsagarðinum, sem staðsettur er í miðju þess.
Án efa voru kringumstæðurnar ekki hlutlausar þar sem Villa Anbar átti að rísa. Stjórnmálamenn og trúarleiðtogar höfðu meira vald yfir húsagerðarlistinni en sjálfir arkitektarnir. Má þar nefna að á meðan á byggingu hússins stóð, skipaði ríkisstjórnin svo fyrir að nærliggjandi miðaldarbær yrði jafnaður við jörðu einungis vegna þess að flókið skipulag hans byggt á þröngum húsasundum og torgum, hefti stjórn yfirvalda.
Til þess að takast á við þetta ókunna umhverfi, viðurkenndi enski arkitektinn að nákvæm lesning bókanna Handan við blæjuna eftir Fatima Mernissi og Kynferði og rými eftir Beatriz Colomina hefði haft áhrif á nálgun hans á einstök atriði hússins. Þættir þess urðu nú ekki bara bundnir við að uppfylla þarfir Frú Anbar, barna hennar og barnabarna varðaði herbergjaskipan, heldur líka, og umfram allt, bar að túlka húsið sem pólitískt rými.

Djúphyggið augnaráð
Peter Barber gerði athuganir á mætti augnaráðsins gagngert til þess að ákvarða skiptingu rýmisins í Villa Anbar. Hvort sem um var að ræða almenningssvæði eða sérherbergi þá var auganu beint ákveðnar brautir í gegnum ólíkar leiðir og naut þar af leiðandi sýndar sem tók stigbreytingum; fékk algjört útsýni eða takmarkaða sýn eða, að jafnvel var aðeins gefið í skyn hvað lægi að baki.
Hlið við aðganginn að húsinu veitir innsýn í húsagarð þrátt fyrir að hliðarveggur varni því að augnarráðið nái lengra. Þröskuldurinn er afmarkaður af dyratré sem gengur yfir vegginn. Þetta dyratré gegnir tveimur hlutverkum; annars vegar rennur vatn frá því og yfir í sundlaugina hinu meginn við vegginn og hinsvegar er táknrænt hlutverk þess að mynda umgjörð utan um augnaráðið og þannig að gefið er í skyn að eitthvað sé fyrir handan. Þegar gengið er inn inngönguna, birtast agnarlítil op rist í framvegg hússins og gefa þau til kynna návist óséðra íbúanna.
Þó að innra skipulag fylgi þeirri hefð að aðskilja skuli vistarverur karla og kvenna, þá er sneytt hjá þessarri uppbyggingu með einföldum athöfnum. Lárétt rák, eins og sprunga, er skorin í einn veggjanna í dagstofu kvennanna sem gerir þeim kleift að sjá inn í það óséða, karlaveldið. Eins og búast mátti við, kröfðust karlmeðlimir fjöslkyldunnar að hleri yrði settur yfir gluggakarminn. Það var gert, en sem mótsögn við það sem við mátti búast var honum komið fyrir í dagstofu kvennanna.
Á móts við sundlaugina er íverustaður bílstjórans staðsettur á annarri hæð og slútir hann yfir garð fjölskyldunnar. Afleiðingin er sú að þegar hann horfir út um gluggann sinn, snertir augnaráð hans einkarými fjölskyldunnar þar sem hún eyðir frístundum sínum. Jafnvel þótt hleri yrði settur yfir gluggann væri alltaf fundið fyrir návist bílstjórans vegna umfangs herbergisins. Návist þjónustustúlkunnar er aftur á móti óbeinni. Tengsl eru mynduð milli herbergis hennar - staðsett á þaki hússins og í burtu frá sérherbergjum fjölskyldunnar - og húsagarðins í miðju hússins fyrir atbeina röð gata sem höggvin eru í vegginn. Augnaráði hennar er þannig leyft að nema við táknrænt hjarta hússins.
Á meðan hann studdist við hefðbundna skiptingu kynferðis og mismunandi stétta, sem krafist var af þjóðfélagi Múslima, þá gróf Peter Barber undan henni með vægum efasemdum um þjóðfélagslegar aðstæður og breytingar.

Ljósmyndir: Peter Barber Associates
Myndatexti
1. Peter Barber (f. 1960) arkitekt.
2. Grunnteikning af jarðhæð Villa Anbar: 0. Innganga, 1. Dagstofa kvenna, 2 Dagstofa karla, 3. Setustofa, 4. Sturta, 5. Salerni, 6. Eldhús, 7. Svefnherbergi, 8. Húsagarður, 9. Bílskúr, 10. Herbergi þjónustustúlku, 11. Þvottahús, 12. Tækja- og vélarúm, 13. Svefnherbergi bílstjóra.
3. Að hluta til vegna þess að húsbyggjandinn er ekkja, þá hefur húsið aðeins einn inngang frá götu. Gestir af báðum kynjum mætast á þessum stað þar sem ómur vatnsins ber með sér boð um návist fjölskyldunnar í sundlauginni.
4. Dagstofa karla.
5. Horft inn í dagstofu karla út um glugga í dagstofu kvenna.

EINBÝLISHÚSIN LIS OG FELIZ Á MALLORCA, EFTIR JØRN UTZONDanski arkitektinn Jørn Utson byggði hús árið 1972 á Mallorca, fyrir sig og fjölskyldu sína til þess að eyða frídögunum og nefndi það eftir konu sinni Lis. Húið er staðsett á háum kletti á móts við Miðjarðarhafið nálægt þorpinu Porto Pietro. Tuttugu og tveimur árum síðar neyddist hann til þess að flytja burtu úr húsinu vegna þess að það hafði orðið að áfangastað pílagrímsferða arkitekta. Utzon byggði annað hús, Can Feliz, einnig á Mallorca, en í þetta skipti heldur hann staðsetningunni leyndri.

Can Lis
Jørn Utzon varð mikið um síðustu orð sænska meistara síns, arkiteksins Gunnars Asplund, áður en hann dó af völdum of mikils álags: "Öll þessi vinna, hún hefur ekki verið þess virði, var það nokkuð?" Um þær mundir var Utzon önnum kafinn við verðlaunaverkefnið sitt, Sidney óperuhúsið, sem nú er einna frægust allra nútímabygginga. Eftir mikla vinnu í níu ár við hönnun og byggingu hússins, ákvað hann árið 1966 að segja af sér vegna fjárhagserfiðleika og vegna þess að honum var sýnd óvirðing sem arkitekt af hálfu ástralska samgöngumálaráðuneytisins.
Í leit að algjöru skjóli til þess að eyða frídögunum, byggði Utzon hið friðsæla hús Can Lis, staðsett á meðal myrtu og furutrjáa og með einstakt útsýni yfir hafið. Aðalbyggingarefnið, harður kalksteinn frá staðnum, aðlagast vel landslaginu þar sem litur hans breytist frá gulum í bleika tóna. Húsið er röð sjálfstæðra skála sem tengdir eru saman með vegg og er þeim skipað niður þannig að þeir bregðist við loftslagsbreytingum eyjarinnar og ólíkum notum sem bústaðurinn felur í sér. Í því samhengi vísaði Utzon til sögu Karen Blixens um afríska bændur þar sem hún segir: "það var óhugsandi fyrir þá að byggja húsin sín í jafnri röð vegna þess að þeir fylgdu reglu sem miðaðist við stöðu sólarinnar, staðsetningu trjánna og, náttúrulegs og gagnkvæms sambands bygginganna." Afstaða skálanna vísar á ákveðið útsýni yfir hafið sem líka kemur enn betur fram í gerð fastra húsgagnanna búin til úr steypu og gljáandi keramik flísum. Gluggarnir eru settir beint á veggflötinn þannig að samskeytin eru ekki sjáanleg að innanverðu. Þetta gerir það að verkum að ljósið flæðir mjúklega inn og gerir mörkin óljós milli skuggsællra rýma hússins og brennheitrar Miðjarðarhafsólarinnar.
Vegna afstöðu skálanna og sjálfstæðra eiginleika þeirra, fylgist samvera fjölskyldunnar að allan daginn samkvæmt gangi sólar.

Can Feliz
Í dag búa Utzon og konan hans, Lis, allt árið um kring á Mallorca. Vegna fjölda gesta og mikils rakastigs sem þó er árstíðabundið, létu þau Can Lis í hendur barna sinna og barnabarna árið 1994 og fluttu í nýja húsið sitt nefnt Can Feliz.
Can Feliz er upp í fjöllunum, miklu ofar og afskekktara en Can Lis, og fjarri rakri hafgolunni. Bæði húsin eru lögð út frá sömu grundvallaratriðunum hvað varðar byggingarefnin, þó að síðara húsið tilheyri frekar hefðbundnum húsum eyjarinnar, byggt í kringum verönd og með hallandi þaki.
Í leit sinni að algjörum hvíldarstað þá hafði Utzon þróað nýja formgerð fyrir húsbyggingar með tilkomu Can Lis, sem arkitektar geta notið góðs af. Það er kaldhæðnislegt, en maður gæti ætlað að með því að reyna að afstýra svo miklum gestafjölda, þá var síðara húsið hannað af minni metnaði, gagngert til þess að uppfylla þá ósk um að vera algert skjól frá skarkala lífsins.
Það sýnir vægi fjölmiðlanna að einu heimildirnar sem við höfum um Can Feliz eru frásagnir gesta sem fullyrða að þeir myndu ekki geta fundið leiðina til baka að húsinu, eitthvað sem Utzon metur að verðleikum. Hann biður þess innilega að hans sé ekki leitað.

Ljósmyndir: Søren Kuhn
Myndatexti
1. Jørn Utzon (f. 1918) arkitekt, við Can Feliz.
2. Í leit að algjörum hvíldarstað byggði Utzon hið friðsæla hús Can Lis með einstöku útsýni yfir hafið.
3. Can Lis. 1. húsagarður, 2. borðstofa, 3. eldhús, 4. vinnuherbergi, 5. inngangur, 6. yfirbyggð verönd, 7. stofa, 8. svefnherbergi.
4. Hálfmána sófinn í stofunni í Can Lis fylgir gangi sólarinnar. Að lokum, við sólarlag horfir maður á eldinn í arninum.
5. Can Feliz. 1. inngangur, 2. forstofa, 3. húsagarður, 4. vinnuherbergi, 5. stofa, 6. eldhús, 7. borðstofa, 8. yfirbyggð verönd, 9. svefnherbergi, 10. verönd, 11. sundlaug.
6. Gljáandi keramik flísarnar í eldhúsinu í Can Feliz eru tilvísun í hefðbundna húsagerð á eynni.

EINBÝLISHÚSIÐ U, EFTIR TOYO ITOEinbýlishúsið U var byggt árið 1976 í miðborg Tokyo. Það var hannað af arkitektinum Toyo Ito fyrir eldri systur sína eftir að hún hafði misst eiginmann sinn af völdum krabbameins. Árið 1997 var húsið rifið niður að Toyo Ito viðstöddum. Hvernig er hægt að ústskýra svo örlagaríkann endi?

Óskir syrgjandi fjölskyldunnar
Fjölskyldan bjó í lúxusíbúð í einum af skýjakljúfum borgarinnar. Eftir lát eiginmanns síns bað ekkjan arkitektinn um að hanna fyrir sig hús þar sem hún og dætur hennar öðluðust sterk tengsl við jörðina og gróðurinn. Einnig óskaði hún þess að húsið yrði L- laga til þess að allir meðlimir fjölskyldunnar gætu haft sjónræn tengsl hvorir við aðra. Af tilviljun var lóðin við hliðina á arkitektinum til sölu, sú sama og ekkjan hafði búið fyrir hjónabandið. Það var eins og hún vildi aftur ná tökum á minningunum sem hjálpaði henni að sameina fjölskylduna á þessum erfiðu tímum.
Í viðræðunum við arkitektinn hvarf smátt og smátt áherslan á hagræðingu þjónusturýma en snérist stöðugt meira um táknrænt gildi rýmisins. Á þann hátt breyttist form hússins frá því að vera L-laga í að verða U - laga steinsteypubygging sem stuðlaði þannig að auknum áhrifum ljóss og sterkari tengslum milli íbúanna.

Ævi hússins
U-húsið skiptist í tvo langa ganga. Annar þeirra endar í herbergjum stúlknanna og hinn fer í gegnum eldhúsið og baðherbergið þar til hann sameinast herbergi móðurinnar. Báðir gangarnir eru dimmir og leiða inn í ljósið, stórann glugga í boga Usins. Veggir og loft þessa fjölnota rýmis - notað til leikja, borðhalds og íhugunar - eru múrhúðaðir og hvítmálaðir og gólfið er lagt teppi sem einnig er hvítt. Í þessu rými leysist ljósið upp og gefur mjúka áferð en rifa við loftið beinir dagsljósinu inn í þráðbeinni skálínu. Sterk áhrif ljóssins eru ítrekuð ekki síst vegna þess hve allt rýmið er hreinhvítt, virðist vera flötur án dýptar. Það er einskonar tjald þar sem ímyndir og fljótandi skuggar íbúanna endurvarpast. Það er rými sem tekur tillit til mannlegrar vitundar en ekki einungis mannslíkamans.
Tuttugu og eitt ár liðu frá byggingu hússins þar til fjölskyldan var tilbúin til þess að endurvekja tengsl sín við ytra umhverfi. Sú fyrsta sem flutti út var eldri dóttirin. Hún hafði aldrei hugsað út í það hvort henni hefði þótt gott eða óþægilegt að búa í húsinu þó að hún talaði um húsið sem lokaðann kassa. Sú tilfinning hefði e.t.v. best komið fram hjá hinum mörgu gæludýrum sem þær höfðu haft en þau höfðu engan veginn viljað vera ein í afgirtum húsagarðinum. Móðirin flutti síðar í minni íbúð en sem tónlistarfræðingur hafði hún notið þess hvernig tónlistin hafði endurkastast af berum veggjunum. Yngri dóttirin var síðust til að flytja en hún hafði öðlast visst fegurðarskyn í þessu húsi sem kom fram í doktorsritgerð hennar um Kandinsky og seinna í starfi hennar sem forstöðumaður listasafns.
Það síðasta sem við verðum vitni að í sögu hússins er áhrifamikil ljósmynd sem sýnir niðurrif þess. Í stað þess að túlka hana sem eyðileggingu heimilis þá ber hún merki um annað stig sem fjölskyldan fór í gegnum. Niðurrif hússins er tákn um nýtt líf, og þar af leiðandi, getum við lagt rök fyrir því að húsið var fyrir fjölskyldu á tímum sorgar.

Myndatexti:
A. Toyo Ito (f. 1941) arkitekt.
B. Ein af óskum ekkjunnar var að allir meðlimir fjölskyldunnar gætu haft sjónræn tengsl hvorir við aðra.
C. Grunnmynd U-hússins.
D. Hvítt tjald þar sem ímyndir og fljótandi skuggar íbúanna endurkastast.
E. Ævi hússins.
F. Niðurrif U-hússins 1997.