HÚS Í BAIÃO, EFTIR EDUARDO SOUTO DE MOURA




Portúgalski arkitektinn Souto de Moura var beðinn um að taka að sér að hanna lítið hús fyrir hjón með tvö börn. Húsið skyldi standa hjá ánni Douru við veginn um Baião hæðirnar og verða helgar dvalarstaður fjölskyldunnar. Hjónin óskuðu þess sem grundvallaratriði, að það yrði hugsað út frá rústum, sem þar voru fyrir.

Milli náttúru og mannasmíðar
Það er hægt að túlka rústir sem mörkin þar sem húsagerð og náttúra mætast, þ.e. augnabliksins þegar bygging hættir að vera húsagerð og verður hluti af náttúrunni. Verk Souto de Moura endurspeglar áhuga á þessari rökræðu milli náttúrunnar og mannasmíðar; rökræðu þar sem byggingarstaðurinn verður að tæki, að andlegri og vitsmunalegri æfingu um sjálfan sig.
Þetta næmi fyrir staðareinkennum er samfara trúnni á einfaldleika til þess að hjálpa til við að breiða út hugmyndir. Souto de Moura gerir orð ljóðskáldsins Eugenio de Andrade um að ".... aðeins nákvæmt orðalag sé gagnlegt almenningi..." að sínum eigin í þeim skilningi. Sá síðarnefndi var þeirrar trúar að tækin sem arkitektar nota við að "skrifa" - með efnivið eins og bergi, stáli og gleri sem væru notuð samhliða ekki síður mikilvægum atriðum eins og natni við samskeyti og tengingar - hefðu það að markmiði að skapa einfalda hluti sem væru kyrrlátir og hógværir í tengslum sínum við tímann. Í því skyni stuðlaði efniviðurinn að smíða ljóðlist sem höfðaði til tilfinninganna.
Efnisnotkun og lausn samskeyta leiddi þó af sér einfaldleika sem um leið var flókin byggingarlist, grundvölluð á svipmóti staðarins. Það var um það að ræða að falla fyllilega inn í umhverfið; að felulita ný rými í náttúrunni, að leyfa jöðrum að renna saman og þannig að undirstrika séreinkenni og draga fram merkingu hvers umhverfisþáttar.
Eðli rústanna varð mikilvægt í þeim skilningi að þær þjónuðu sem aðgreining sem skilgreindi mörkin. Þær voru túlkaðar sem grundvallaratriði sem ákvarðaði rýmið og stuðlaði að tilfinningunni fyrir hugtakinu um tímann. Húsagerðin er þannig ekki þvinguð. Hún heldur uppi samræðum við þá staðarhætti þar sem henni er komið fyrir, eins og friðsæl þögn þar sem náttúran er upplifuð sem húsagerð og menningin upplifuð sem náttúra.

Húsið í Baião, 1990 - 1993
Til þess að koma til móts við óskir húsbyggjendanna voru rústir af sveitabyggingu, sem stóðu upp við hlaðinn grjótvegg í hlíðinni, túlkaðar sem brú milli innri menningar (íbúanna) og ytri raunveruleika (tímans). Á þann hátt endurheimtu þau rústir staðarins sem lokaðan garð sem myndaði aðkomuna að nýja húsinu sem byggt var við hliðina.
Verkið hófst með því að rífa niður steinhellur úr grjótveggnum, hlöðnum úr graníti sem var algengt byggingarefni norðarlega á Portúgal. Síðan var jarðvegur fluttur þannig að andhverfa hússins var mynduð á lóðinni inn í hlíðina. Að því búnu tóku rústir gömlu byggingarinnar að taka á sig lögun lokaðs garðs sem þjónaði því hlutverki að vera anddyri nýja hússins. Það hús var ferhyrnd bygging úr steypu sem studdist við rústirnar og skorðuð inn í hlíðina. Á þann hátt stuðluðu rústirnir að því að sameina gömlu fortíðina og nýja húsið sem, vegna þess hve það var hálfgrafið niður, var lokað á öllum hliðum nema á framliðinni sem var á móts við ána Douro. Þegar maður er staddur hjá steinhlöðnum arni gerðum úr steinhellum úr gamla grjótveggnum, nýtur augað víðfeðms útsýnis innan úr húsinu, allt að Cerdeira dalnum, í gegnum glerframhlið hússins.
Einfaldleiki fyrirkomulags hússins var leyst með einni hæð undir grasivöxnu þaki sem varð hluti af staðháttum og umhverfi. Afleiðing þess að vera trúr hugtakinu um rústir sem hættu að vera húsagerð til þess að breytast í náttúru var sú að húsið tók á sig svipmót landslagins á þann hátt að það voru ekki lauf trjánna fyrir framan húsin sem orkuðu eins og annað hörund heldur var það landslagið sjálft, sem virtist flytjast nær húsinu alla leið inn á stofugólf.

Ljósmyndir: Luis Ferreira Alves
Myndatexti
A. Eduardo Souto de Moura (1952), arkitekt.
B. Fjölskyldan vildi hús í smáum hlutföllum til þess að eyða helgarfríum sínum við ána Douro.
C. Gengið er um anddyri hússins í gegnum lokaðan garð rústanna.
D. Frágangur glersins gengur yfir brún þaksins. Þessi þáttur smíðinnar sýnir að eini útveggur hússins er skynjaður sem teygt áklæði úr gleri og áli, samsíða gömlu granítveggjunum.
E. Innanhúss er það skápur sem klæðir bakvegginn og setur reglu á hluti hvers herbergis, auk þess að innihalda eldhúsið.