HÚS Í CORRUBEDO (GALICIA), EFTIR DAVID CHIPPERFIELDÞað að fella hús inn í byggt umhverfi þýðir ekki að herma eftir rúmfræðilegum formum þess sem í kring um það er. Húsið sem hér um ræðir fellur þau inn í sitt eigið form þegar það túlkar hugtakið um að búa í húsi við Atlantshafið.

Bretinn David Chipperfield var þegar orðinn höfundur viðurkenndra bygginga í Evrópu, Asíu og Ameríku, þegar hann ákvað árið 1996 að byggja sumarhús fjölskyldunnar í litlu sjávarþorpi í norður hluta Spánar. Þorpið hét Corrubedo, þar sem arkitektarnir Manuel Gallego, Estanislao Pérez Pita og Iago Seara höfðu hannað eigin hús og þar sem hinn virti arkitekt Alejandro de la Sota hafði oft eytt leyfum sínum. Þetta var staður við ólgandi haf og nálægt einstökum sandöldum og sem slíkur bauð hann upp á algjöra andstæðu við annasama starfsemi arkitektsins í London.

Corrubedo
Bæði David Chipperfield og kona hans Evelyn höfðu lengi verið heilluð af Spáni. Undanfarin tíu ár höfðu þau leigt bústað í þessu litla þorpi í suðurhluta Coruña-héraðsins. Corrubedo, með aðeins 726 íbúa, dregur að sér þúsundi ferðamanna á hverju sumri sem bragða á ferskum skelfiski, veiða nytjafiska af ættum vartara og vatnakarfa og njóta þjóðgarðarins sem er þekktur fyrir stóra síbreytilega sandöldu úr örfínum sandi.
Í leit að lóð til sölu, fundu þau Chipperfield-hjónin loksins eina sem lá sem skarð í aðalgötuna og rétt fjórum metrum frá sjó. Þrátt fyrir að þessi húsaröð frá 6. áratugnum hefði haft þann möguleika að opna hliðar sínar bæði til hafs og að þorpslífi aðalgötunnar, þá virðist sem krafturinn sem býr í hafinu hafi haft sín áhrif og sýnir formgerð húsanna að þau kusu fremur þorpið. Öll snúa þau að götu með svölum sínum en hlífa sér gegn hafinu með því að minnka gluggana niður í lítil vindaugu þeim megin.
Það, að hafa sína eigin fjölskyldu sem viðskiptavin, gaf Chipperfield það mikið frelsi að hann varð að endurskoða nálgun sína að verkefninu. Hvað átti hann eiginlega að túlka? Án nokkurs þrýstings um ákveðinn stíl eða fyrirfram gefið form, fannst honum meira viðeigandi að byrja að hugsa húsið innan frá. Það er, að íhuga stöðu manneskjunnar og þær samtengingar sem ákvarða húsagerðina, sambandið milli íbúans og tilrauna á rýminu. Allt frá upphafi, eins og í öllum hans verkefnum, leitaðist Chipperfield við að skapa rými sem ætti rætur sínar að rekja til einfaldra helgisiða heimilisins: að borða morgunverðinn, lesa bók, elda matinn og hugleiða hafið. Um væri að ræða byggingarlist-leiksvið sem kallaði ekki á athygli, þó maður fyndi ávallt fyrir nærveru hennar.

Að taka við öflum sjávarsins
Hafið varð aðal efniviður túlkunarinnar: fjölskyldan yrði að geta notið afla þess og aðdráttarafls til fullnustu þegar hún kæmi í leyfum sínum. Afleiðingin varð sú, andstætt við húsin í kring, að innri rými hússins horfðu út á flóann og höfnina en friðhelgi fjölskyldunnar var skýlt frá aðalgötunni með nær gluggalausri framhlið.
Húsið rís á fjórum hæðum. Upp frá grjótinu, nokkrum metrum frá ströndinni, liggur skábraut beint að svefnherbergjum barnanna, herbergjum sem minna helst á káetur skipa. Yfir þessarri hæð hvílir stofan en framhlið hennar er alglerjuð og snýr út á haf. Þar fyrir ofan er önnur hæð svefnherbergja en efst eru þaksvalir. Þær, í skjóli af vinnustofunni, skaga út í átt að Atlantshafinu eins og þær vildu ná til þess. Hvers konar hindrun sem truflað gæti útsýnið hverfur upp á þaksvölunum þar sem fjölskyldan undirbýr grillið eins og hún væri á þilfari skips.
Saga bæjarins snýst um lífið í kringum hafið. Í þeirri atburðarrás hefur hafið það hlutverk að vera tengiliðurinn milli fortíðarinnar og þess að búa í nútíðinni. Þetta sterka afl náttúrunnar ákvarðar ytra útlit hússins, efnisval og dreifingu innri rýma. Styrkleiki steinsins í grunni hússins er ítrekaður í þyngdarleysi glersins á hæðinni fyrir ofan, tilfinning fyrir léttleika sem verður ávallt sterkari þar til hún hverfur allt í einu á þaki hússins.
Þrátt fyrir tilsvörun í hafið, nær hús Chipperfields að laga sig að nærliggjandi húsum sem höfðu skýlt sér frá sjónum. Það heldur uppi samræmi í hæðarhlutföllum, efnisnotkun og litbrigðum gagnvart þessum húsum aðalgötunnar en í stað þess að endurtaka rúmfræði þeirra, tengir arkitektinn rúmfræði þeirra með því að nota óreglulegar línur sem endurspegla síbreytilegan sjávarflötinn og fylgja óreglulegum útlínunum sem snúa að bænum Corrubedo. Á þennan hátt spratt verkefnið upp frá því að vangaveltur ferðamannsins, húsagerðarinnar og fjölskyldunnar voru felld inn í viðhorfið að “gerast hluti af en samt aðskilin” umhverfinu. Að hálfu Chipperfields var það ekki spurning um að búa til ný form heldur að hvetja til samræðna milli sögu staðarins og þeirra nýkomnu.

Myndir:
a. David Chipperfield (f. 1953), arkitekt. (Mynd: Nick Knight)
b. Sumarhús í Corrubedo (2002). Það tók fjögur ár að byggja húsið vegna erfiðra veðurskilyrða. (Mynd: Hélène Binet)
c. Frá dagstofunni er horft út á ógnvekjandi hafið, stundum ótrúlega stillt, sem hefur dregið að sér athygli margra ljóðskálda, málara og listafólks. (Mynd: Hélène Binet)
d+e. Byggingarlist við Atlantshafið, ólíkri þeirri við Miðjarðarhafið, dregur sig saman gagngert til þess að vernda íbúana þegar veðurguðirnir leika grátt á menn.
f. Notkun nútímatækni, eins og álkerfa fyrir framhliðar sem hafa að geyma hágæða einangrun á gluggum og samskeytum, gerir það að verkum að hægt er að hafa glugga opna í öfgakenndu veðurfari Atlantshafsins. (Mynd: Hélène Binet)