HÚS ROGERS Í WIMBLEDON, EFTIR RICHARD ROGERSÁður en síðari heimsstyrjöldin skall á var pólitísk staða á Ítalíu þegar orðin óbærileg fyrir margan. Sú var raunin fyrir lækninn Nino Rogers, sem vegna gyðingauppruna síns sá sig tilneyddan til þess að flýja Flórens. Þaðan flutti hann til Lundúnarborgar árið 1938 ásamt konu sinni, Dödu, og fimm ára gömlum syni þeirra, Richard. Að baki sér skildu þau eftir virðulega þjóðfélagsstöðu, sem hafði endurspeglast á heimili þeirra í La Marmora stræti með stórkostlegt útsýni yfir dómhvelfingu Brunelleschis.
Þrjátíu árum síðar, áður en Nino fór á eftirlaun, báðu þau Nino og Dada Richard son sinn, sem þá var orðinn arkitekt, að hanna fyrir sig lítið hús í Wimbledon. Richard Rogers tók verkefninu sem einstöku tækifæri til að færa foreldrum sínum aftur birtuna sem þau minntust frá heimili þeirra á Ítalíu.

Rogers-fjölskyldan
Nino og Dada höfðu átt hús í Flórens með stórum þakgarði og stórbrotnu útsýni yfir borgina. Það var búið viðar- og marmarahúsgögnum eftir bróðurson Nino, arkitektinn Ernesto Rogers. Ernesto, sem einnig hafði þurft að yfirgefa Ítalíu, var einn stofnenda BBPR stofunnar, sem var höfundur Torre Velasca byggingarinnar í Mílanó, og ritstjóri hins virta tímarits Casabella coninuitá. Þar hafði hann ákaft hvatt til alþjóðlegrar umræðu um hugtök, sem tengdust sögunni og borginni á 5. áratugnum.
Þegar Nino og Dada flúðu til London var þeim óheimilt að taka með sér sparifé sitt frá Ítalíu. Fyrsta húsið þeirra í Englandi var þar af leiðandi gjörólíkt því sem þau áttu að venjast frá Flórens, þrátt fyrir að Nino fengi fljótt stöðu við sjúkrahúsið í Surrey. Það var drungalegt gistiheimili, sem Dada reyndi að forðast með löngum gönguferðum með Richard litla um Holland Park í “örvæntingafullri leit að útsýni”. Eftir gistiheimilið fluttu þau í dæmigert enskt hús frá þriðja áratugnum, þrátt fyrir sterka löngun Dödu til að finna nútíma hús. Í úthverfi Surrey var ekkert nútímalegra á boðstólum.

Rogers-húsið
Rogershjónin komu bæði frá vel stæðum fjölskyldum og Dada var komin af velmenntuðum aðalsmönnum frá Trieste. Hún var ákafur unnandi nútímahönnunar. Richard minnist þess, að hún hafi aldrei hneykslast á því nýja, “hún unni sterkum litum, nýjum formum og efnum.” Hún bjó til keramík sem líktist flöskum listmálarans Giorgio Morandi, bjó heimili sitt húsgögnum frá Bauhaus, sem þótti sérstakt í Bretlandi á eftirstríðsárunum, og á síðustu æviárunum klæddist hún ávallt fatnaði frá japanska tískuhönnuðinum Issey Miyake.
Áður en Nino fór á eftirlaun í lok 7. áratugarins óskuðu þau hjónin eftir litlu húsi, sem væri í senn ódýrt og þyrfti lítils viðhalds, væri sveigjanlegt og á einni hæð. Þau vildu líka að húsið yrði reist á stuttum tíma og væri þannig að Nino gæti verið með litla læknastofu og hún keramikverkstæði. Auk þess að fullnægja öllum þessum þörfum langaði Dödu þó mest í hús með karakter, andstætt húsinu í úthverfinu sem hún hafði aldrei haft mætur á.
Árið 1967 fann fjölskyldan lóð í Wimbledon með grónum garði. Til að ná fram sem mestu næði ákváðu Richard og kona hans Sue, sem vann með honum sem félagsfræðingur, að hanna hús, sem skiptist í tvennt og verönd á milli. Keramikvinnustofan var nær götu og virkaði sem hljóðeinangrun gagnvart umferðarnið. Inn af garðveröndinni var íbúðarhúsið, sem, eins og Richard Rogers lýsti fyrir okkur, “er gagnsæ göng með sterkbyggðum hliðum.“ Húsið er gert úr stálrömmum sem spanna 14 metra en hliðarnar úr einangrunarplötum klæddum lökkuðu áli og settar saman með vatnsheldu efni, neopren. Þessi aðferð hafði þá aðeins verið þróuð í Bandaríkjunum við framleiðslu stórra kæliskápa.
Richard Rogers notaði hér framleiðslueiningar og nýja tækni til þess að skapa sveigjanlegt og persónulegt rými, nokkuð, sem minnir á kenningar frænda hans Ernesto Rogers í Casabella continuitá um sköpun mannlegra rýma. Þessi huglægni var líka að vissu leyti fengin frá þekkingunni sem Richard hlotnaðist frá móður sinni og einstöku næmi hennar fyrir sterkum litum. Þannig máluðu þau stálrammana í gulum og grænum litbrigðum, eldhúsaðstöðuna, rúllugardínurnar og renniflekana. Það sem meira var, grænleit birta garðsins hennar Dödu skein inn í húsið í gegnum glerjaðar framhliðarnar og flæddi um keramikið hennar, hægindastóla Eames og húsgögn Ernesto Rogers: stóla og borðstofuborðið úr marmara og viði, gólflampann og yndislega snyrtiborðið hennar með speglunum.
Hús Rogers-hjónanna er staður þar sem saga og menning einnar fjölskyldu kemur fram. Síðasta myndin, sem við höfum séð af Dödu, er af henni þar sem hún stendur brosandi heima hjá sér, fullviss um að hafa endurheimt birtuna og rúmgott rýmið sem hún hafði skilið eftir í Flórens.

Myndatexti:
a. Richard Rogers, lávarður (Flórens, 1933), hlaut virðingu um alla heim sem höfundur Pompidou-safnsins í París, ásamt Renzo Piano. (1971-77). (MYND: DAN STEVENS, RRP)
b. Að frátöldu húsinu fyrir listamanninn Spender, höfðu verk Richard Rogers alveg verið laus við liti. Þau voru öll hvít, eins og Jaffer-húsið fræga, húsið sem Stanley Kubrick kaus fyrir eitt atriði myndarinnar Gangverk appelsínunnar (Clockwork Orange) (1971). (MYND: RICHARD BRYANT, ARCAID)
c. Grænleit birtan úr garði Dödu flæðir inn í húsið. (MYND: RICHARD BRYANT, ARCAID)
d+e. Rogers-húsið í Wimbledon, hannað 1967, varð sú bygging sem stóð fyrir breska húsagerð á Tvíæringnum í París sama ár.
f. Dada Rogers (1908-1998). (MYND: KEN KIRKWOOD)