HÚS Í SAN MATÍAS-HVERFINU (GRANADA), EFTIR JUAN DOMINGO SANTOS
Til þess að gera húsagerð að veruleika út frá þeim forsendum að viðkomandi gerir með sér samkomulag, er nauðsynlegt að öðlast ýtarlega þekkingu á lifnaðarháttum og eigum nágrannans, að tengjast einkalífi hans.

Verkefnið hófst árið 1989 og heldur áfram, án eindaga. Borgarstjórnin hafði sýnt áhuga á að endurbæta niðurnítt íbúðarhverfi í miðborg Granada, þekkt fyrir vændi, og Juan Domingo Santos var beðinn um að endurgera eitt af gömlu vændishúsunum. Eftir að hafa gert sér grein fyrir frumatriðum þess að búa í samfélagi, ákvað arkitektinn að vinna út frá sjónarmiðum íbúanna. Farið var í samningsviðræður um ákveðnar einingar innan húsanna og stofnað til leiks um að gera öllum kleift að njóta rýma sem þá hafði dreymt um.

Samfélagskenndin
Húsin í San Matías-hverfinu bera nöfn dregin af séreinkennum eða bæklun vændiskvennanna sem áttu þau (La Remedios, La Pepinica, La Cabezona). Domingo Santos var beðinn um að vinna að húsi La Coja (Krypplingsins). Það var með innanhússgarði og stóð við þrönga götu - rétt um metri á breidd - við hús La Remedios, la Carmela de los Muertos, og skraddara.
Domingo Santos velti því fyrir sér að ef maður væri tilbúin til að biðja nágrannann um bolla af sykri eða salt út í grautinn, að vökva blómin eða að taka póstinn á meðan maður væri á ferðalagi, hvort ekki væri hægt að taka skrefið lengra og spyrja jafn eðlilega hvort við gætum ekki fengið lánaðan hluta af stofunni hans eða annað ónotað rými sem okkur væri mikils virði. Það, að biðja um leyfi fyrir því að fara í gegnum innanhússgarð nágrannans á leið okkar heim eða að deila þvottasnúrunum með honum, urðu leikreglur gagnkvæmra skipta sem arkitektinn gerði að tillögu sinni. Tillagan fékk strax góðar undirtektir nágrannanna og gerðu þeir lista yfir óskir sínar og hvað þeir mynda leggja til skiptanna. Lögfræðingar og arkitektinn sáu til þess engin fjárhagsleg umbun færi fram við þetta samkomulag um gagnkvæm skipti á rýmum og húseiningum. Afleiðingin var að hús sem byggðist á samkomulagi stuðlaði að félagslegum tjáskiptum og hvatti til samvistar. Eins og Domingo Santos ítrekaði: “hægt var að byggja upp á við og niður, til hægri og vinstri. Allar hreyfingar voru mögulegar svo lengi sem þær voru samþykktar.”

Samkomulag búið til fyrir húsin.
Í bréfi stílað á Sögur húsanna, útskýrði Juan Domingo Santos ferlið sem leiddi til gagnkvæmra skipta. Hús vændiskonunnar, La Coja, var hvati alls ferilsins. Þar var lítið skýli við hliðina á innanhúsgarði. Við hliðina á henni bjó La Remedios í fallegu húsi með innanhússgarði frá 19. öld prýddum steinsúlum og viðarbitum. Til þess að gera draum sinn að veruleika um að eignast slíkan garð, lagði La Coja til við la Remedios að sameina innanhússgarðinn við húsið hennar þannig að hún gæti notað hann sem göngustíg og farið um hann óháð. Í staðinn, myndi La Coja í nýja húsinu sínu búa til sund við hliðina á innanhússgarðinum La Remedios í hag. Við sameininguna myndu þær fá aðgang að tveimur götum við enda húsakeðjunnar, bara með því að fara þvert í gegnum sund-innanhússgarðinn. Lausnin hæfði þeim báðum, nú þegar þetta rými varð að sveigjanlegu svæði, sem áður hafði verið óslétt og erfitt aðkomu. Annað samkomulag sem þær gerðu með sér, var að tengja fyrstu tvær hæðar húsanna (sem voru mjög lítil) og fá þannig stærra gólfrými sem hægt væri að leigja út. Við það myndu þær öðlast tekjur sem annars hefði reynst óhugsandi.
Tengingarnar voru fjárhagslegur ávinningur og bættu lífsaðstæður, svo að la Carmela de los Muertos var til í að vera með í leiknum. Hún lagði til að gera innanhússgarðinn sinn að hluta af sundinu og sameinast torgi, sem var á móts við hann. Afleiðingin var forvitnileg. Borgin, fyrir utan umferð um götur og torg, bjó hún líka yfir hreyfingum innanfrá. Þó innanhússgarðar væru eign margra húseigenda voru dyr þeirra ávallt opnar. Hvaða vegfarandi sem var gat nýtt sér þá.
Viðbrögð La Coja við þessari útfærslu uðru þau að hún lagði til hluta af þakinu sínu sem útsýnispall yfir dómkirkjuna, sem kom sér vel fyrir la Carmela de los Muertos. Í skiptum gerði hún herbergi með útsýni yfir torgið aðgengilegt fyrir La Coja. Breytingarnar umbreyttu lífi La Coja. Hún hafði upphaflega átt lítið hús, milli nágranna með lítinn og ómerkilegan innanhússgarð en með fallegt útsýni yfir dómkirkjuna. Nú gat hún loksins gerst hluteigandi að hefðbundnum 19. aldar innanhússgarði, að herbergi með útsýni yfir á torg sem og horft út um glugga sem ekki voru hennar eigin yfir í innanhúsgarð. Í öllum þessum gjörningum fékk hús La Remedios líka farsæla lausn. Aðkoman að innanhússgarðinum hennar var endurbætt, sem hafði verið mjög óaðgengileg. Henni hafði líka tekist að gera eigendaskipti við la Carmela de los Muertos á nærliggjandi húsi nær miðbænum, sem hún hafði lengi haft augastað á.
“Þessi leikur gagnkvæmra skipta og nota hefur leyst upp í bili,” viðurkenndi Juan domingo Santos, “borgin keypti nefnilega hús la Carmela de los Muertos fyrir nokkrar skrifstofur. Þar sem þetta eignarhald er tímabundið bíðum við La Coja, la Carmela de los Muertos og la Remedios eftir að þær fari svo við getum tekið upp þráðinn á ný. Mótsagnir lífsins eru samt oft svívirðilegar, la Carmela de los Muertos var myrt af viðskiptavini. Við verðum því að sjá til hver verði næsti eigandi hússins, sem við munum nálgast til að fá með inn í leikinn.”
Verkefnið er einstakt og sprettur upp frá aðstæðum borgarbúa. Samningsviðræður, sem hugtak, er orðinn hluti af byggingarferlinu, alveg jafn mikið og hugsunin um tilvistarstefnuna. Með þeim verður til ný og næmari húsagerð gagnvart afstöðu sinni til viðskiptavinarins og styrkir tengsl þjóðfélagsins og húsagerðarlistarinnar. Reyndar hefur Juan Domingo Santos ítrekað við okkur að væntingarnar sem voru bundnar við San Matías-hverfið hafa leitt af sér að mörg vændishúsanna hafa verið keypt og breyting á gerð íbúanna hefur gert vart við sig á síðustu árum.

Myndatexti:
a. Juan Domingo Santos (f. 1961) arkitekt.
b. Verkefnið fyrir þennan húsakjarna gerði nútíðina og mótsagnir hennar að upphafsreit sínum.
c. Húsaeiningarnar, sem skiptst hefur verið á síðustu 15 ár, eru innanhússgarðar, herbergi með glugga sem snýr að torginu, útsýni frá svölum yfir dómkirkjuna og gluggar yfir einka-innanhússgarða.
d. Metnaður var lagður í að koma til móts við hagsmuni nágrannanna við endurgerð húss la Coja og að túlka hús með innanhússgörðum hefðbundin fyrir þetta hverfi. Birtan var mjög mikilvægur þáttur í því ferli og að búa til mismundi rými eftir gangi sólar- og tungljóssins.
e. Hagkvæm laus lá í því að aðskilja ekki rýmin með skilrúmum, það auðveldaði aðstæður fyrir áframhaldi á eignar-setrum eða “innrásum” inn í nærliggjandi hús.
f. Allir grunnfletir eru opnir með stiga í einu horni, eins og í hefðbundum húsum hverfisins sem eru með innanhússgarð.