LÍTIÐ HÚS FYRIR KOLONIHAVEN, EFTIR ENRIC MIRALLES

Spænski arkitektinn Enric Miralles var beðinn um að hanna lítið timburhús nálægt Kaupmannahöfn árið 1996. Verkefni, sem hann vann með eiginkonu sinni Benedetta Tagliabue, einnig arkitekt. Útkoman varð hús, sem endurspeglaði tímaskeið fjölskyldu.
Þessi grein er sú eina í flokknum saga húsanna sem fjallar um verkefni sem hefur ekki verið byggt. Miralles lést nýverið úr krabbameini sem kom í veg fyrir að honum tækist að ljúka við byggingu hússins. Við tileinkum honum þennann greinaflokk.


Hús tímans byggt
Það er til gömul mið-evrópsk hefð fyrir því að byggja lítil hús, nokkurs konar klefa, í grænmetisgörðum í útjarðri þéttýlis. Þetta húsaskipulag nefnist Kolonihaven á dönsku en eina notagildi þess er að veita eigendunum skjól á meðan þeir njóta tímans úti í náttúrunni.
Kolonihaven nálægt Kaupmannahöfn samanstendur af margvíslegum húsum vegna þess að mjög ólíkir en frægir arkitektar voru valdir til þess að hanna á þessu svæði. Hjónin Miralles og Tagliabue hófu verkefnið með það fyrir augum að ná tökum á tímaskeiðinu. Út frá þessum byrjunarreit, útskýrðu arkitektarnir,"varð húsið að dagatali". Það var staður til þess að finna fyrir því hvað tímanum leið, á meðan notið væri náttúrunnar, foreldrarnir töluðu saman við hringborðið á meðan börnin voru að leik. Auk teikninga og líkana, þá lögðu arkitektarnir fram þýskt dagatal til frekari útskýringa. Þetta dagatal sýndi blóm mismunandi mánuða ársins, og tímasetningar hvenær blóm þeirra opnuðust og lokuðust á daginn: blóm kaffifífilsins í febrúar og vatnaliljur júnímánaðar voru opin á morgnanna en blóm morgunfrúarinnar í september voru opin allann daginn, sem og nellikurnar í desember.
Rás tímans var líka skráð þegar uppdrátturinn var skissaður af litla húsinu. Enric og Benedetta réttu litlu dóttur sinni lítinn barnastól sem hún byrjaði að leika sér að, tók sín fyrstu skref og hreyfði hann úr stað. Líkt og hann væri afleiðing teikninga af þessum hreyfingum, þá ól uppdrátturinn af sér rými úr timburburðargrind sem vafði sig utan um stúlkuna og stólinn eins og klæði, og, utan um hina fullorðnu og borðið þeirra.
Á þessu augnabliki komu arkitektarnir með gamla teikningu eftir arkitektinn Le Corbusier þar sem stúlka biður fullorðinn mann að leika við sig, og býður honum að koma inn um litlar dyr og inn í heim, búinn til eftir hennar hlutföllum. Húsið í Kolonihaven er breytilegt í hæð. Mjög lítil lofthæð er í barnaherberginu en hún verður mun hærri í setustofunni fyrir fullorðna. Þegar horft er á þverskurð af húsinu, þá nær það taki á rás tímans - húsið stækkar með íbúunum, frá því að vera barn og í það að verða fullorðinn.

1955-2000
Inntak þessa verkefnis um lítið skjólhús felur í sér umfjöllum um rás tímans og lífið sjálft. Hlutverk þess er einmitt það, og ekkert annað. Ef það er rétt að maður geti lagt mat á arkitekt sem byggist á úrlausn verkefnis fyrir einbýlishús, þá getur hönnun lítils timburhúss í hverfi sem Kolonihaven verið mælistika á bæði arkitektinn sem arkitekt og sem manneskju. Það er verkefni þar sem maður getur metið persónuleika arkitektsins. Þegar honum er úthlutað verkefni sem þessu þá er leitast eftir viðhorfi hans til lífsins og, að hafa tilfinningu fyrir tímanum.
Ef til vill er þetta ástæðan fyrir því að Enric Miralles taldi litlu dóttur sína með í þróun hússins fyrir Kolonihaven. Hann nefndi hana sem einn af samstarfsmönnum sínum og bætti nafni hennar á nafnalista vinnuhópsins. Hér var í senn verið að rugla saman reitum á einkalífinu og atvinnunni, eitthvað sem Enric hafði alltaf gert.

Myndatexti:
1. Enric Miralles (1955-2000) arkitekt.
2. "Húsið verður að dagatali."
3. Enric vildi alltaf nota líkingarmál þegar hann útskýrði verkefnin sín. Hér varð húsið í Kolonihaven "agnarlítill steinn í landslagi dvergtrjáa."
4. Smávaxinn stúlka tekur sín fyrstu skref með hjálp lítils barnastóls.
5. Litla húsið hefur tvo innganga. Annar þeirra er örlítill fyrir barnið.
6. Líkan úr sápu.
7. Húsið var eins og klæði sem vafði sig utan um hreyfingar barnsins og foreldranna.