BLAS-HÚSIÐ Í SEVILLA LA NUEVA (MADRID), EFTIR ALBERTO CAMPO BAEZA
Þetta var “óþægileg” lóð, með miklum halla en þó með fallegu og víðfemnu útsýni. Hér bað eigandinn, prófessor í bókmenntum, arkitektinn Alberto Campo Baeza að teikna fyrir sig hús þar sem fjölskyldan gæti “hlustað á tónlist”. Líkt og að gefa honum veganesti í upphafi hönnunarferilsins gaf viðskiptavinurinn arkitektinum ljóðabók strax á fyrsta degi.
Það sem á eftir kom, var ávöxtur samstarfsins milli viðskiptavinarins og arkitektsins. Gagnkvæmur skilningur á menningarverðmætum mótaði hús þar sem hlustað er á tónlist í kyrrlátri þögninni.

Hús sniðið að tilfinningunum
Þegar eigandinn, Francisco de Blas, vitjaði arkitektsins kom hann með að gjöf heildar ljóðasafn skáldsins, Luis Cernuda (1902- 1963) en hann hafði verið félagi í hópi ljóðskálda, Generation 27, sem, meðal annarra, Federico García Lorca var hluti af. Ljóðabókin hafði verið gefin út í Mexíkó árið 1950. Hún endurspeglaði sterkar tilfinningar til umhverfisins með næmi og kærleik, en einnig vissa þjáningu og einmanaleika. Þær voru andstæður, eða brú, milli þess að gera hans persónulegu óskir að veruleika – vonin – og þeirra takmarkana sem umheimurinn þrengir upp á manninn - raunveruleikinn. Hið þekkta ljóð Cernuda, Þar sem gleymskan býr frá árunum 1932-33, lýsir heimi þar sem maðurinn lætur öll vandamál til hliðar til þess eins að öðlast hið langþráða frelsi. Þessu lestrarefni miðlaði bókmenntaprófessorinn til arkitektsins. Það var augljóst að Francisco de Blas óskaði sér einhvers meira en einfalds húss. Í nýja bústaðnum yrðu tilfinningarnar og hugleiðingar að vera skynjaðar sem hluti af byggingarefninu sjálfu.
Þessi áskorun hafði sérstakt aðdráttarafl fyrir Campo Baeza. Verkefnin sem hann tók að sér höfðu í raun ávallt haft það að markmiði að skapa ljóðlist. Þá viðleytni miðlaði hann til arkitektanemenda sinna, ekki síst þegar hann hóf fyrirlestra sína á tilvísun í ljóð William Blakes, Augurios of Innocence:

Að skynja heila veröld í einu sandkorni.
Og himinn í einu villtu blómi,
Halda á hinu óendanlega í lófa þínum,
Og eilífðinni í einni klukkustund.

Hlustandi á þögnina
Með þetta að veganesti fóru viðskiptavinurinn og arkitektinn að skoða staðinn. Þrátt fyrir að í fyrstu hefðu þeir áhyggjur af óþægindum sem gætu komið upp vegna fimmtán metra hæðamunar á lóðinni, varð sá síðarnefndi strax sannfærður um möguleikana sem sköpuðust fyrir hönnun hússins. Lóðin sjálf var þrjú þúsund fermetra að stærð og situr á hæð suðvestur af Madrid með fallegt útsýni til norðurs í átt til fjalla. Kosturinn við að húsið lægi þetta hátt í landinu gerði það að verkum að húsin í kring myndu hverfa og heimilisfólkið myndi njóta landslagsins óhindrað út við sjóndeildarhringinn.
Að lokinni hæðarmælingu lóðarinnar ákvað arkitektinn að búa til pall sem skipti húsinu í tvennt: annars vegar sæti steyptur massívur kassi á jörðinni höggvinn inn í fjallið og yfir honum yrði reist létt stál- og glergrind sem hyrfi nærri því inn í landslagið. Þessir tveir byggingahlutar hafa í raun ólíka eiginleika, eða aðstæður, og leiða birtuna með ólíkum hætti gegnum byggingarefnin: annað ógagnsætt og hitt gagnsætt. Eins og Campo Baeza hefur útskýrt fyrir okkur vísar húsið í heild sinni til hugmyndarinnar um hellinn - að leita sér skjóls - andspænis frumkofanum - að láta sig dreyma. Grunnmynd bústaðarins er skýrt afmörkuð inn í steyptum kassanum: samtengd þjónusturými í innri hluta íbúðarinnar en einka-og félagsleg rými að framan sem njóta útsýnis yfir landslagið og eru römmuð inn af ferhyrndum opum sem skorin eru út í veggina. Áhrifin verða til þess að landslagið virðist langt í burtu og við náum ekki til þess vegna fjarlægðarinnar. Þessi tilfinning er andstæð þeim áhrifum sem eiginleikar gagnsæju grindarinnar búa til. Þessi efri hluti hússins, sem er stofan sjálf, myndar útsýnisstað á pallinum þar sem maðurinn er algjörlega gagntekin af valdi umhverfisins.
Þessi skýra skipting á nýtingu rýmisins í grundvallaratriðum verður til þess að heimilisfólkið öðlast rými ríkt andlegum gæðum þar sem það getur gleymt tímanum, hlustað á hljóð umhverfisins, á þögnina og á tónlist landslagsins... Ósjálfrátt minnist maður tónsköpunar John Cage, “Fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur (1952) þar sem píanóleikarinn sest hljóðlega við flygilinn á meðan tónleikagestir leggja eyrun við hljóðin í kring. Engar tvær manneskjur skynja þögnina á sama hátt sem segir okkur að almennt er fólki ekki kennt að hlusta á þögnina.
Blas-húsið býður upp á aðstæður til að finna frið með sjálfum sér og öðlast frelsi. Upplifunin er persónubundin og fer eftir næmi mannsins til íhugana; að gleyma, að minnast og tengja sjálfann sig við umhverfið. Þannig hafa Francisco de Blas og Alerto Campo Baeza mótað hús þar sem ljóðlistin hefur stuðlað að því að búa til annars konar ljóðlist, þ.e. hlutlægt ljóðform þess sem skynjar staðinn.

Myndir: Teiknistofa Campo Baeza
Myndatexti:

a. Alberto Campo Baeza (f. 1946) er arkitekt og prófessor í byggingarlist í Madrid. Arkitektinn Raúl del Valle vann einnig að Blas-húsinu.
b. Þversnið Blas-hússins (2000) endurvekur hugmyndina um hellinn - að leita skjóls - á móti frumkofanum - að láta sig dreyma.
c+d+e. Húsið situr á hæð með útsýni yfir fjöllin í kringum Madrid.
f. Birtan kallar ekki aðeins fram form rýmisins heldur gerir burðargrindinni kleift að taka á sig óefniskennda mynd.
g. Glerið án gluggapósta er fest við norðurhlið hússins en á suðurhliðinni er það dregið inn til að búa til skugga.
h+i Gagnkvæmur skilningur á menningartengdum grundvelli milli viðskiptavinarins og arkitektsins mótaði hús þar sem hlustað er á tónlist í þögninni.