EINBÝLISHÚS INNAN UM PLÓMUTRÉ (TOKYO), EFTIR KAZUYO SEJIMA




Ung hjón, með tvö börn ásamt ömmu þeirra, völdu arkitektinn Kazuyo Sejima til að hanna nýja húsið þeirra. Hún var þekkt fyrir byggingar “með léttu yfirbragði, stílhreinar, hvítar og án yfirlætis”, en það voru eiginleikar sem þau töldu að myndu hjálpa þeim að finna jafnvægi gegn togstreitunni milli einkanæðis heimilisins og almenningstengsla húss með garði. “Húsaskjól fyrir sálina” og “staður til þess að njóta blómstrandi plómutrjánna í garðinum”. Þessar voru óskir fjölskyldunnar þegar hún talaði um hugmyndirnar að húsinu sínu.

Stigskipt þjóðfélagskerfi og afmarkanir dregin í efa
Auglýsingatextahöfundurinn, Miyako Maekita og eiginmaður hennar, sem var auglýsingaframleiðandi, áttu litla lóð í íbúðahverfi í grennd við Tokyo. Lóðin, aðeins 92,30 fermetrar að stærð, líktist almenningsgarði innan hverfisins, þakin plómutrjám og villtum blómum.
Hjónin höfðu lengi haft augastað á þessarri lóð, og langað til að byggja sér hlutlaust einbýlishús sem væri eins og hvítur strigi, laust við nokkuð sem gæti truflað heimilislíf þeirra og að sjá börn þeirra vaxa þar úr grasi. Þau voru ekki hlynnt þeirri hugmynd að hús stæði fyrir peningavöld eða ætti að kalla á athygli. Húsið þeirra ætti að búa yfir miklu meiri andagift. Það ætti að vera staður þar sem sálin fyndi jafnvægi og líkaminn slakaði á. Það sem meira var, þau nefndu aldrei “heimili, hlýtt og þægilegt heimili” í samræðum sínum við arkitektinn. Þeim var umhugað um að byggja hús sem hjálpaði þeim að undirbúa börnin undir það að fara út í heiminn. Það gaf augaleið að börnin myndu fyrr eða síðar fljúga úr hreiðrinu og það var því fjarstæðukennt að skapa aðstæður sem síðar myndu kalla á heimþrá. Þannig að þegar Kazuyo Sejima spurði Miyako hvers konar húsi þau leituðust eftir, svaraði hún: “Einhvern veginn eins og trjágrein til að tylla sér á tímabundið”.
Áhugi arkitektsins vaknaði strax. Kazuyo Sejima hafði stundað arkitektanám í japanska kvennaháskólanum, háskólastofnun sem hafði verið komið á fót eftir síðari heimsstyrjöldina sem andspyrna gegn japönskum lögum um að banna konum aðgang að ríkisreknum háskólum. Af augljósum ástæðum höfðu þessar forsendur áhrif á nemendurna, þ.e. að taka þá afstöðu að draga í efa fyrirframgefnar reglur og siðvenjur. Sejima dró í efa skipan hefðbundins heimilis varðandi ákveðinn herbergisfjölda, setustofu, borðstofu og eldhús, eftir að hún hafði gert athuganir á nýjum lífsháttum. Hún dró þá ályktun að fastheldin hugtök eru ekki lengur réttmæt í þjóðfélagi hraðra breytinga.

Hús, sem andlegt skjól
Húsið lítur út eins og fullkominn hvítur teningur þar sem það hvílir í einu horni lóðarinnar. Útidyrnar renna saman við vegginn en einu ummerkin um þær eru motta og lítið skyggni. Í stað venjulegra glugga eru ferhyrnd göt á dreif hér og þar um hliðarnar án nokkurs skipulags. Rökin fyrir þessu má finna innan frá. Kazuyo Sejima vildi ekki búa til dæmigerð herbergi með viðeigandi samsafni af húsgögnum og lagði þess í stað til að minnka hvert herbergi niður í eitt húsgagn eða einn ákveðinn verknað. Þannig urðu til allt að 17 ólík herbergi, til dæmis svefnherbergi barnanna sem samanstóðu af herbergi-rúmi og herbergi-borði. Öllum herbergjunum er komið fyrir á 77,68 fermetrum á tveimur hæðum, en te-herbergið er staðsett á þakinu.
Hver flötur á svo litlu yfirborði er nýttur til hins ýtrasta. Burðarvirki hússins var reist með stálveggjum. Þannig minnkaði þykkt útveggjanna niður í 50 mm og inniveggja niður í 16 mm, til þess að burðarvirkið, veggirnir og gólfið renna saman í eitt og hvert þeirra virðist hafa sömu þyngd.
Við það að túlka hugmyndina að “herbergi-vinnustofu”, tengdi arkitektinn nokkur stök herbergi með því að mynda op í veggina sem gengið var frá án þess að gler væru sett í þau. Með þessum opum birtust nýir möguleikar: nokkur herbergjanna njóta útsýnis í gegnum glugga úr öðru herbergi, loftið leikur frjálst um herbergin í gegnum opin, og drengurinn, eða kötturinn hans, getur komið inn eða farið út úr herberginu sínu í gegnum þessi op. Ekkert rými er algjörlega einangrað. Um leið og fleiri möguleikar opnast til athafna, verður hugmyndin um að vera út af fyrir sig sveigjanlegri. Meðlimir fjölskyldunnar geta valið sér rými allt eftir skapi, einir eða með öðrum.
Í þessu húsi gengur Sejima einu skrefi lengra í rannsóknum sínum á híbýlum upplýsingaþjóðfélagsins. Í stað þess að setja upp ákveðin mörk, leitast hún eftir skilgreiningunni á því, sem er til staðar milli rýmanna. Þrátt fyrir að þetta nýja rými sé ekki sýnilegt, er hægt að gera tilraunir á því. Til dæmis er tilfinningin fyrir dýpt gerð að engu í herbergi stúlkunnar. Hægt er að horfa inn í næsta herbergi í gegnum op á stálveggnum og virðist herbergið þá vera flatt, eins og það væri mynd sem hengd væri upp á vegg. Þetta líkist því að vera leikur sem kemur manni á óvart. Þegar íbúinn fer allt í einu framhjá glugganum verður rýmið milli gluggans og opsins á veggnum áþreifanlegt.
Einbýlishúsið í plómugarðinum er annað og meira en hús með garði. Það er ný gerð húss sem túlkar það hvernig hið óáþreifanlega getur verið hluti að hinu byggða formi.

Myndatexti:
a. Kazuyo Sejima (f. 1956) hafði stundað arkitektanám í japanska kvennaháskólanum, menntastofnun sem tók þá afstöðu að draga í efa fyrirframgefnar reglur og siðvenjur.
b+c+d+e+f. Hús í plómutrjágarði (2003). Grunnmyndir, framhlið og þversnið.
g. Herbergi barnanna samstanda af herbergi-rúmi og herbergi-borði. (Ljósmynd: SANAA)
h. Burðarvirki hússins er reist með stálveggjum, 16 millimetra þykkum skilrúmum innanhúss og 50 millimetra þykkum útveggjum sem málaðir eru með sérstakri varmaeinangrunarmálningu.
i. (Ljósmynd: SANAA)Lítil afmörkuð herbergi hússins, 17 samanlagt, eru gerð í tilraunaskyni til að skapa eitt innantengt rými. (Ljósmynd: SANAA)