STRETTO HÚSIÐ Í DALLAS, EFTIR STEVEN HOLL




Stretto húsið (1989 -1992) í Dallas, Texas Bandaríkjunum er eftir bandaríska arkitektinn Steven Holl. Það var byggt fyrir fólk sem átti gott safn listaverka og mjög fallega lóð. Arkitektinum voru engin skilyrði sett. Væntanlegir húsbyggjendur sögðu við hann; "þú mátt gera það sem þú vilt". Hvert var svar arkitektsins við þvílíku frelsi?

Leitað að söguþræði fyrir húsið
Áður en arkitektinn hugsaði frekar um lögun hússins, fór hann á staðinn og kannaði staðhætti. Lóðin einkenndist af þremur tjörnum með fjórum steinsteyptum stíflugörðum. Á tali við einn nemanda sinn sem hafði komið á staðinn, spurði Steven hann hvort til væri formgerð fyrir tónverk sem væri hliðstætt rennandi vatni í gegnum þessar fjórar stíflur. Nemandinn sagði honum frá "Stretto" forminu sem er líkt fúgu þar sem ein tónlistarsetning skarast á við aðra. Tónlist Béla Bartoks fyrir strengi, slagverk og celesta (1936) kom upp í hugann. Tónverkinu er skipt í fjóra kafla og byggist á skörun milli hljóðfæranna, þjóðlagastefja og, áhrifamiklum og ákveðnum takti. Taktskipti og áherslur eru breytileg; átakamikill tjáskiptasláttur undirstrikar ákveðinn taktinn sem annaðhvort lætur tímann líta út sem hann standi kyrr eða æði áfram með ómótstæðilegum skriðuföllum.
Steven Holl hafði alltaf dáðst að tónlist Béla Bartoks. Bartok hafði reynt að sameina hefðbundna og nútíma tónlist. Hann safnaði og og greindi ungverska tónlist og uppgötvaði m.a. fimmtóna tónstiga, og bjó þannig til nútímatónlist byggða á stórkostlegum hljómsetningum sem endurómuðu af frumlegum laglínum.

Tónlist Stretto hússins
Það tók Steven Holl sex mánuði að koma fram með skissu að húsi sem grundvallaðist á tónverki í fjórum köflum, og sem síðar skiptist niður í létta og þunga þætti á víxl. Hugmynd, sem átti eftir að haldast og verða að raunveruleika.
Stretto formið gerði arkitektinum kleift að brjóta upp rýmið þannig að hver þáttur var þýðingarmikill fyrir hvern annan, í víðara samhengi. Vatnið, sem flæðir yfir stíflugarðana og er táknrænt fyrir skörun strettto formsins, enduspeglar rýmið í landslaginu og hina raunverulegu skörun rýmisins innanhúss.
Form Stretto hússins er byggt á ólíkum einingum sem móta flókna heild. Grunnflöturinn er algjörlega hornréttur en þverskurður hússins bogadreginn. Í gestahúsinu snýst þetta við, gólfflöturinn er bogadreginn og þverskurðurinn hornréttur líkt og gerist í tónhvörfum fyrsta kaflans í tónlist Bartoks.
Húsið sjálft skiptist niður í fjóra hluta sem hver um sig greinist í tvo samtvinnaða þætti - þunga hornrétta múrverksbyggingu sem vísar til steinsteyptu stíflugarðanna úti á lóðinni og, léttann og bogadreginn málm. Þessi bogadregni málmur er þak yfir hin ýmsu herbergi - stofu, listaverkageymslu, skrifstofu, borðstofu og morgunverðarhorn. Hver hornrétt múrverksbygging hefur sitt notagildi s.s. stiga (sem leiðir upp í svefnherbergi, setustofu og svalir) og baðherbergi, bókasafn, eldhús og, í þeirri síðustu er tjörn sem sameinast læknum sem rennur niður í stíflurnar.
Flæði og skörun rýmisins þróast á mismunandi hátt: gólfflöturinn, t.d. dregur eina hæðina inn í aðra, þakflöturinn dregur rýmið yfir veggi og bogadreginn veggurinn dregur dagsljósið inn í húsið.
Í Stretto húsinu höfðar Steven Holl til listrænnar skynjunar og næmi. Húsið er upplifað í gegnum skörun á rými og ólíkar áferðir, ómstríð tónbil og breytileg taktskipti. Arkitektinum voru gefnar frjálsar hendur en til þess að reyna að skilja viðhorfið til listarinnar, túlkaði hann aðstöðu íbúanna og staðhætti eins og hann skynjaði þau.

Myndatexti:
a. Steven Holl arkitekt (f. 1947).
b. Stretto er ítalskt hugtak sem í tónlistarlegu samhengi miðlar tilfinningarlegum átökum sem eru ítrekuð með hljóðfærunum sem skarast á við hvort annað. Tónlist fyrir strengi, slagverk og celesta eftir Béla Bartók (1881-1945).
c+d. Teikningar af Stretto-húsinu, bygging sem hlaut hin virtu þjóðarverðlaun (1993) afhent af Arkitektafélagi amerískra arkitekta.
e. Grunnmynd af Stretto-húsinu: 1. Verönd, 2. Bílskúr, 3. Inngangur, 4. Stofa, 5. Listaverkageymsla, 6. Bókaherbergi, 7. Lestrarstofa, 8. Setustofa, 9. Morgunverðarhorn, 10. Eldhús, 11. Garður, 12. Laug, 13. Herbergi sem flætt hefur inn í.
f. Formúla fyrir tónlist og byggingarlist sem Steven Holl túlkaði: Efniviður x hljómur/tími = Efniviður x ljós/rými.
g. Módel sýnir tengsl hússins við stíflugarðana og gestahúsið.
h. Time Magazine tilnefndi Steven Holl besta ameríska arkitektinn “vegna þess að byggingar hans fullnægja sjóninni jafnt sem andanum”.
i. Í stofunni eru áhrif tónlistarinnar skynjuð í húsgögnunum. Ullarteppi voru hönnuð eftir tónlistarhandriti og virðast fljóta yfir speglandi svörtu terrazzo-gólfunum.