EINBÝLISHÚS Í RIVA SAN VITALE, EFTIR MARIO BOTTASvisslendingarnir, Carlo og Leontina Bianchi, voru góðkunningjar arkitektanemans, Mario Botta, þegar hann gerði breytingar á íbúðinni þeirra í litla þorpinu, Genestrerio. Nokkru síðar eða árið 1971, þegar hann hafði nýlokið námi sínu, bað sama fjölskyldan Botta um að hanna fyrir sig einbýlishús. Í þetta skiptið var það út í sveit, í Ticino héraðinu, við rætur fjallsins, Monte San Giorgio, á móts við Lugano stöðuvatnið. Þrátt fyrir að þarfirnar væru mjög svipaðar í báðum tilfellum - ódýrt húsnæði, með herbergjum fyrir hjón með tvö börn - var hugsanaferlið mjög ólíkt fyrir nýja húsið. Nú var eins og byrjað væri að ígrunda húsið fyrst með þakinu.

Landfræðilegar aðstæður
Lóðin var staðsett norður af gamla fiskveiðiþorpinu, Riva San Vitale, við enda vegaslóðar sem liðaðist niður eftir fjallshlíðinni í átt að víðáttumiklu skóglendi. Þetta var fallegt land, sem Leontina Bianchi hafði erft. Stærð þess var 820 fermetrar, þakið háum kastaníutrjám, og lá það í brattri hlíð sem náði allt niður að Lugano stöðuvatninu sem lá við rætur hins stórbrotna fjalls, Monte Generoso, sem var hluti hinna snævi þaktra Lombardi alpa.Einkenni héraðsins voru annars stílhrein gömul hús, sögulegar menjar um mannleg ummerki. Auk 16. aldar hofs í Riva San Vitale sem var afar tilkomumikil, stóðu þar líka áður fjölmargir, gamlir "Roccoli". Þeir voru dæmigerðir turnar sem notaðir voru til fuglaveiða en seinna var mörgum þeirra breytt í helgarbústaði. Einmitt þessi samsetning náttúru og einfaldra bygginga gaf staðnum einstakt yfirbragð. Þrátt fyrir þetta, hafði landsvæðið við vegaslóðann, sem endaði við lóð Bianchi hjónanna, orðið fyrir fyrirhyggjulausu skipulagi alla síðustu öld. Það var ástæðan fyrir því að Botta var umhugað, allt frá upphafi, að koma með tillögu að húsi sem skírskotaði mörk hinnar hirðulausu þenslu þorpsins, og væri um leið, aðferð til þess að vernda og virða skóglendið. Að hluta til vegna þess hvernig Botta mótmælti harðlega fyrra skipulagi með sínum volduga arkitektúr gerðist það stuttu eftir að húsið var tilbúið, að það var samþykkt nýtt skipulag fyrir svæðið, þar sem það var skilgreint sem grænt svæði með friðuðu skóglendi, þar af leiðandi, voru ekki gefin leyfi fyrir fleiri húsbyggingar á svæðinu. Það er skýringin á því að í dag stendur húsið eitt í þessu verndaða umhverfi. Mario Botta játaði að þegar byggt væri umbreyttist náttúran, en ítrekaði um leið, ábyrgðartilfinninguna gagnvart því að hanna þægilegt mannlegt umhverfi. Afrakstur þessarra umræðna eru veggspjöld ferðaskrifstofanna í Ticino héraðinu sem sýna myndir af svissnesku landslagi með byggingum Botta. Í húsinu við Riva San Vitale, endurtúlkaði hann staðbundna gerð fuglaveiðiturnanna til að vernda landslagið, sem var um leið svörun við óskum vina sinna um að geta notið útsýnisins yfir stöðuvatnið fyrir ofan trjátoppana og finna um leið fyrir sterku jarðsambandi.

Að byggja landslagið
Frá gamla veginum efst á lóðinni liggur mjó stálbrú að húsinu sem er fernhyrndur turn, 10 metrar í þvermál og 13 metrar á hæð. Þessi 18 metra langa göngubrú undirstrikar aðgreiningu hússins við landið og opinberar það sem útsýnisturn yfir nærliggjandi landslag. Tilfinningin, þegar gengið er yfir brúna að húsinu, er eins og að ganga inn í landslagið, augun nema ekki staðar fyrr en við kirkjuna í Melano-þorpinu, hinum megin við stöðuvatnið. Þar sem fyrirkomulag hússins snýst í kringum stiga sem liggur miðsvæðis, býður hringrásin upp á mismunandi útsýni. Talið frá innganginum niður á við, er vinnuherbergi efst ásamt svölum til austurs með útsýni yfir stöðuvatnið og fjöllin, þar fyrir neðan er hjónaherbergið með rúmgóðum svölum til suðurs og útsýni út á engin, enn neðar er barnaherbergið ásamt leikherbergi. Öll svefnherbergin opnast út á þriggja hæða loftrými, þannig að þau tengjast sjónrænt hvert öðru og rýmunum fyrir neðan, það er, eldhúsinu og stofunni. Neðst er síðan kjallari og stór yfirbyggður inngangur sem opnast beint út í garð. Húsið er líkast höggmynd sem höggvið er inn í og allar hliðar þess bregðast skilmerkilega við nærliggjandi umhverfi: stöðuvatninu, kirkjunni í Melano, engjunum, skóglendinu og aðkomunni við gamla veginn. Sérhver skurður í hliðarnar afmarkar ákveðið útsýni og lýsir vel skoðunum Mario Botta um að arkitektúr fjalli um hönnun staða. Af þessu má sjá að hliðar bygginga hans snúast ekki aðeins um að skreyta eða fegra ásýnd ásýnd þeirra. Þær tjá einnig sambandið milli innanhússrýmisins og nágrennisins, hringrás sólarinnar eða beina athyglinni að tilvist sögulegra bygginga. Húshliðarnar búa yfir rúmfræði sem ná yfir og endurspegla nærliggjandi umhverfis.


Myndatextia.
Mario Botta (f. 1943). (ljósmynd: René Burri).
b. "Roccolo" voru algengir turnar í héraðinu, notaðir til fuglaveiða.
c. Veggirnir eru gerðir úr tvöföldum steinsteyptum mótum án múrhúðunar, gólfin eru lögð leirflísum og brúin er rauðmáluð stálgrind. Öll eru efnin einföld og hefðbundin en vandaður frágangurinn minnir á gamla prófessorinn hans Botta úr Feneyjarháskólanum, Carlo Scarpa. (ljósmynd Antonio Martinelli)
d. Húsið er rýmd sem höggvið er inn í og hliðar þess bregðast við nærliggjandi umhverfi. Af rúmlega 1000 rúmmetrum hússins, er aðeins búið í 220 fermetrum.
e+f. Innra rými hússins er landslagið úti. (ljósmynd Alo Zanetta)