SANTOS MIRANDA HÚSIÐ, EFTIR ALVARO SIZA
Portúgalski arkitektinn Alvaro Siza var beðinn um að hanna hús fyrir rithöfund í Matosinhos, Oporto snemma á 6. áratugnum. Síðan þá hefur húsið tvisvar skipt um eigendur en Siza hefur samt sem áður haldið áfram að vera arkitektinn ábyrgur fyrir endurbætum og að klæða það húsgögnum. Vegna utanaðkomandi áhrifa uppfyllir húsið núna öll þau skilyrði til þess að vera safn arkitektsins sjálfs.

Eigendur hússins.
Árið 1962 var Alvaro Siza beðinn, þá ungur maður, að hanna hús í þéttu hverfi lítilla lóða fyrir rithöfundinn Ferreira da Costa. Costa leitaði eftir næði og friðsæld og bað um daufa og óbeina lýsingu sem hentaði vel rithöfundastörfum. Lausn Siza fól í sér tveggja hæða hús með þakgluggum sem gáfu birtu ofan frá en hliðar þess voru gluggalausar. Hann vitnaði í hefðbundna húsagerð með því að setja skáhallandi flísalögð þök og múrhúðaða burðarveggi, sem leiddi af sér einfaldar rýmdir og sýndi mjög vönduð vinnubrögð við öll göt (glugga og hurðir).
Húsið hafði eigandaskipti árið 1987 og bað nýi eigandinn, Miranda Dos Santos, Siza um að gera nokkrar endurbætur. Þær fólust í því að opna fyrir glugga sem myndi bregðast gegn daufri birtunni frá þakgluggunum. Þessi nýju göt voru gerð á annan hátt en í upprunalega húsinu, eitthvað sem gaf þróun arkitektsins sjálfs til kynna. Hann bætti við nýju byggingarefni, hvítmáluðum viðarlistum í hvíta gluggakarmana sem voru gerðir úr marmara.
Stuttu síðar, fór húsið til sonar Santos, verkfræðings sem bað Siza um að halda áfram störfum sínum við húsið en í þetta sinn að hanna fyrir það húsgögnin. Hann bað Siza ekki um 'listræna' hluti, heldur frekar að uppfylla ákveðnar þarfir.

Umbreyting hússins.
Á þessu langa tímabili, höfðu aðstæður Siza breyst og hann orðinn virtur um allan heim og að sama skapi upptekinn og eftirsóttur. Til þess að ná því takmarki að verkinu yrði lokið, var þessi síðasti eigandi hússins ákveðinn í að gefa Siza engann frið og hreinlega elti hann árum saman. Sonur Santos sagðist sjálfur bera " alveg einstaka, ég gæti sagt nærri óhóflega, aðdáun á arkitektinum og verkum hans" - sem hann sýndi með því að leita arkitektinn uppi við vinnu, á heimili sínu, og jafvel á flugvellinum til þess að krækja í skissu, hugmynd, leiðréttingu eða samþykki hans.
Siza hefur nú þegar hannað fyrir húsið eftirfarandi ítarlega lista húsgagna: armlampa úr stáli bæði fyrir vegg og gólf, borðlampa með skermi sem formaður er eftir þunnri sveigðri viðarplötu, borðstofuborð með glerplötu afmarkaðri af viðarkanti, nokkrar kommóður úr kirsuberjaviði en handföngin dragast sjálfkrafa inn vegna mótvægis innan frá, skápa undir bolla og diska en hliðar þeirra eru gerðar úr ljósum marmara sem spilar sem mótvægi gegn mahóníplötunum, kringlótt marmaraborð með stálfæti fyrir miðju, stóla með þrjá fætur en setan mjókkar í annan endann til þess að nýta betur rýmið við kringlótt borðið, glerjaða bókaskápa með skrifborði, vegglampa sem er einfaldlega búinn til með því að sveigja slétta viðarplötu, gólflampa þar sem skermurinn er hálfgegnsær marmara diskur, kommóðu sem virkar sem höfuðgafl og grind rúmsins, snyrtiborð, náttborðskommóður með einföldum lampaskermum, náttborð með einni skúffu, heilt samsafn fylgihluta fyrir baðherbergið, og jafnvel hönnun á tveimur ólíkum gerðum af lyklum fyrir hurðir og skápa.
Núna eru nær öll húsgögnin komin í fjöldaframleiðslu, eftirmyndirnar hafa náð vinsældum og þær eru jafnvel að finna á ýmsum hönnunarsöfnum. Vegna þessarra utanaðkomandi áhrifa hefur viðhorfið gagnvart húsinu sjálfu breyst. Það sem upphaflega var hugsað sem einfaldar lausnir til að innrétta húsið varð að frumlegum fyrirmyndum. Þetta gerir húsið að safni húsgagnahönnunar Siza í hans eigin húsagerð. Og, eins og gerist við upphaf yfirlitssýninga, þá heilsar andlitsmynd arkitektsins við innganginn.

Ljósmyndir: Luis Seixas Ferreira Alves
Myndatexti
1. Álvaro Siza Vieira (f. 1933)
2. Grunnteikning af húsi Miranda Santos.
3. Einfaldar rýmdir sem sýna mjög vönduð vinnubrögð við öll göt veggjanna.
4. Leðursófi sem einnig var notaður fyrir Boa Vista veitingahúsið, armlampi úr stáli og hliðarborð allt eftir Siza.
5. Skápar undir bolla og diska en hliðar þeirra eru gerðar úr ljósum marmara sem spilar sem mótvægi gegn mahóníplötunum.
6. Hönnun á tveimur ólíkum gerðum af lyklum fyrir hurðir og skápa..
7. Horft inn ganginn með húsgögnum arkiteksins og andlitsmynd hans.