HÚSIÐ AKTION POLIPHILE Í ÞÝSKALANDI, EFTIR STUDIO GRANDA




Fjarri hávaðasamri umferðinni í Wiesbaden, vildi Koening fjölskyldan uppfylla draum sinn um heimili í nálægð við skóglendið. Þau efndu til alþjóðlegrar samkeppi meðal arkitekta árið 1989 og lýstu því yfir að þau væru "ekki að leita að 'heimsins fallegasta húsi', ekki að húsi fyrir stjörnufræðing, stjórnmálamann, myndlistarmann eða höggmyndara, heldur frekar að húsi fyrir almennan borgarbúa." Margrét Harðardóttir og Steve Christer, stofnendur Studio Granda í Reykjavík, unnu samkeppnina með tillögu að húsi þar sem dyggðum og ódyggðum almenns borgara var velt fyrir sér.

Innblástur fyrir keppinautana
Óskir hjónanna, með börnin sín tvö, fólu í sér möguleika á að taka á móti tveimur til þremur gestum. Auk lista yfir ákveðnar vistarverur sem miðuðust við gömlu íbúðina þeirra og óska um "skýra burðargrind og að uppfylla háar kröfur um hagnýtingu", lögðu þau til andlega hvatningu; skáldsöguna "Hypnerotomachaia Poliphili" (1467) skrifuð af munkinum Francesco Colonna. Hann fjallar um ástir og ástríður, hliðar lífsins sem honum voru ósæmandi sem munkur. Aðalpersónan var Poliphili sem reikaði um þýska flatlendið og Harz skógana og hitti þar m.a. Delíu, gyðju æskunnar, þreks og hreystileika. Skáldsagan var rituð á líkingarmáli um átökin milli ástar og dekkri hliða mannsálarinnar.

Hús þeirra Delíu og Satúrnusar
Studio Granda túlkaði Delíu sem ímynd samtíma lífernis, létta og nútímalega. Satúrnus vísaði í fortíð okkar - efnismikill og frumstæður - þó að hann kæmi ekki við sögu í skáldsögunni. Í rómverskri goðafræði er hann guð sem er tákn fyrir dekkri hlið mannsins og þess að það er tíminn sem skapar og það er einnig að lokum tíminn sem eyðileggur síðan sköpunina. Saman báru þau vitni um margræðni lífsins.
Arkitektarnir skiptu viðfangsefninu niður í tvö hús. Hús Delíu varð hýbýli fjölskyldunnar og uppfyllti allar óskir um nútíma þarfir og aðbúnað. Gestaaðstaðan, Hús Satúrnusar, var miklu minna og með þyngra yfirbragð, byggt úr rauðum sandsteini.
Þegar gengið er inn af götunni þá skyggir rauður sandsteinsveggurinn á þann sem gengur fram hjá og eykur þannig við dimmu Satúrnusar. Eftir að farið er fyrir horn Satúrnusar þá kemur í stað veggjarins, óvæntur trjágróður, snúinn, kvistóttur og tilklipptur. Sterkur ilmur útsprunginna blóma eykur auk þess áhrifin þegar gengið er yfir brú að aðalinngangi Húsi Delíar þar sem sést móta í skóglendi í fjarlægð.
Delía er mjög efnislétt og lífleg bygging - hún byggist á leik mismunandi viðarstanga að sverleika, sem snúast og hlykkjast blíðlega. Þéttar viðarstangirnar á norðurhliðinni minna mann á Poliphili reikandi um þýskt skóglendi. Þær bera vott um hinn ruglaða heim og þjáningu sem sál hans upplifði.
Streymi innan húsanna tveggja fléttuðu þau saman. Hlykkjótt leið hringast um Delíu frá kjallara og upp á þakveröndina. Um leið og gengið er inn innganginn er þessarri leið lokað, af göngustígnum sem liggur frá götuhliðinu og í gegnum skugga Satúrnusar. Allir verða að ganga undir skuggann hans því án Satúrnusar væri Delía ekki til, hann er forfaðir hennar. Hún hvílir á útréttum handlegg hans, viðkvæm og hógvær.
"Skáldsagan var töfrandi aðferð til þess að hafa áhrif á hreinskipta samkeppnislýsingu fyrir mjög erfiða lóð", útskýrði Studio Granda. Þrátt fyrir að það var kappsmál fyrir fjölskylduna að fá öllum hagnýtum atriðum framfylgt, þá tvinnuðu arkitektarnir þessi atriði við ljóðrænann leik í gegnum persónurnar Delíu og Satúrnus. Með tilliti til tvíþætts eðlis mannsins, byggðu þeir hús sem gæti verið gert fyrir sérhvern okkar.

Ljósmyndun: Norbert Miguletz
Myndatexti
a. Margrét Harðardóttir (f. 1959) og Steve Christer (f. 1960), arkitektar.
b. Trérista úr bókinni Hypnerotomachaia Poliphili sem sýnir hetjuna Poliphile reika um skóg tilfinninga.
c. Hús Delíu: a- stofa, b-setustofa, c-eldhús, d-inngangur, e-fatahengi, f- gestasalerni, g-tröppur niður í garðinn, h-tómarúm, i-ofn, j-fallrenna fyrir þvott, k-þjónustuveggur, l-verönd, m-stytta af Janus.
Hús Satúrnusar: n-lesherbergi, o-bókasafn, p-salerni.
d. Húsið Aktion Poliphile samanstendur af Húsi Delíu og Húsi Satúrnusar.
e. Hlykkjótt leið hringast um Delíu frá kjallara og upp á þakveröndina þar sem fjölskyldan getur notið útsýnisins og himinsins.
f. Allir ganga undir skugga Satúrnusar.