VILLA EILA Í GUINEA, EFTIR HEIKKINEN + KOMONEN




Eila Kivekäs, finnskur mannfræðingur og stofnandi þróunarfélags í Afríku, bað arkitekta finnsku arkitektastofunnar Heikkinen+ Komonen um að hanna húsið hennar í Guineu. Valið kom ekki á óvart vegna þess að þeir væru Finnar heldur vegna þess að Heikkinen+ Komonen voru þekktir fyrir fágaðar og hátæknilegar byggingar eins og MacDonald í Helsinki, flugstöð í Rovaniemi og finnska sendiráðið í Washington. Menningarheimarnir voru mjög ólíkir, annars vegar sá sem arkitektarnir voru vanir að vinna í og hins vegar sá raunveruleiki sem var til staðar í Guineu, en arkitektarnir nálguðust verkefnið með þeim hætti að Eila brast í grát þegar hún sá húsið sitt fullgert.

Eila Kivekäs (1931-1999)
Líf Eilu Kivekäs var mjög viðburðarríkt allt þar til hún lést er hún minntist 10 ára afmælis stofnunarinnar sem hún hafði hrundið af stað til þróunarstarfs í Guineu. Afi hennar, sem hafði verið skósmiður í litlu þorpi, rak augun í verksmiðjuframleidda skó í búðarglugga. Hann ákvað að kaupa þá og kannaði gerð þeirra og framleiðslutækni. Innsæi hans varð til stofnunar skóiðnaðarframleiðslu Finnlands. Hundrað árum síðar og í höndum barnabarnsins hans, var afrakstur þessa framtaks settur í þróun Guineu, fátæks lands og fyrrum nýlendu, þar sem búast mátti við að meðalaldur fólks væri 40 ár.
Eila kynntist fræðimanninum Alpha Diallo frá Guineu, en Finnska Bókmenntafélagið hafði boðið honum til Finnlands til þess að fjalla um þýðingu sína á finnska þjóðkvæðinu, Kaleval, yfir á Fulutungumálið. Alpha varð bráðkvaddur í Finnlandi, en hafði tekist að vekja forvitni og áhuga Eilu fyrir heimalandi sínu. Hún sá til þess að líkið yrði flutt til Afríku og fór með það til Guineu. Við komuna aftur til Finnlands skipulagði hún sýningar um ólíka menningarþætti Vestur Afríku. Það sem meira var, og sem svar við áhyggjum vinar síns, stofnaði hún Þróunarfélagið Indigo árið 1989, með bækistöðvar í eitt þúsund íbúa bæ í Mali héraðinu umkringdur Futa Djalon-fjöllunum í NA-hluta Guineu. Sem tákn um virðingu fyrir staðbundnum hefðum, kaus Eila Indigo sem tákn um anda félagsins - nafnið kom frá hefðbundinni indigo-litun á vefnaði, en verkaskiptingin grundvallaðist á því að mennirnir ófu efnið en konurnar lituðu það. Hlutverk félagsins var að bæta stöðu kvenna og efla faglega menntun, að leiðbeina og vinna með fólkinu á staðnum varðandi heilsugæslu, hreinlæti og hollustufæðu.

Einbýlishús Eila
Val Eilu á arkitektunum Mikko Heikkinen og Markku Komonen ákvarðaðist af innsæi þeirra og nálgun ólíkra menningarheima. Byggingarlist þeirra höfðaði til hennar, enda hafði hún þekkt arkitektana persónulega allt frá byrjun 8. áratugarins. Þá höfðu þeir sýnt einstakt næmi við að breyta stóru húsi afa hennar í menningarmiðstöð. Nokkrum árum síðar, þegar hún var á kafi í vettfangsrannsóknum í Afríku, þarfnaðist Eila lítils húss þar sem hún gæti búið hluta ársins, með einfalda grundvallaraðstöðu og tveimur gestaherbergjum. Lóðin sem hún átti var í útjarðri bæjarins Mali, á hæð sem sneri í vestur.
Áður en hönnunin hófst þótti arkitektunum nauðsynlegt að kynna sér menningu Guineu og veðurfar. Þeir komust að því að fjárhagsstaða landsins var mjög bág, mikil áhersla var lögð á að vernda umhverfið og stuðla að notkun staðbundinna byggingaraðferða. Þetta var ekki síst vegna þess að þó að brennsla væri almennt notuð við smíði bygginga og ræktun, þá var hún ólögleg til múrsteinsgerðar og óheimilt var að svíða svæði til ræktunar í landinu. Afleiðingin var gífurleg eyðing trjáviðar sem ógnaði öllu vistkerfinu. Einnig var æskilegt að halda innflutningi á byggingarefnum í lágmarki og takmarka þungaflutning. Þótt ótrúlegt megi virðast, höfðu steypu- og málmplötur náð vinsældum og virðingu á stórum íbúðarsvæðum þrátt fyrir hátt verð og slæma einangrun.
Án efa var vistvænasta aðalbyggingarefnið sem arkitektarnir kusu efnabundnir moldarkubbar. Þetta staðbundna byggingarefni var mjög hagkvæmt: Nýtti sér faglært vinnuafl á staðnum, var yfirleitt aðgengilegt, þarfnaðist engrar brennslu né heldur rafmagns við vinnslu. Efnablandan samanstóð af mold með 5% af sementi sem bindiefni til þess að ná réttu rakastigi. Þá voru byggingarkubbarnir handþjappaðir og veggir reistir. Átta millimetra þunnar leirflísarnar á þakinu voru gerðar úr sömu efnablöndunni nema trefjagleri var bætt í þakið, gólfið var gert úr handunnum terrakotta leirflísum eftir leirgerðarkonur, austurhliðin var fléttaður bambus en í garðinum til vesturs voru hlaðnir steinveggir og gróðursett ávaxtatrjé og blómstrandi runnar.
Á sama hátt og Eila Kivekäs hafði heillast af landi og þjóð Guineau höfðu arkitektarnir næmi fyrir eiginleikum staðarins. Svo virtist sem húsið andaði að sér hitabeltisloftinu með því að raða upp öllum herbergjunum í stakar einingar með svölum á milli þeirra sem opnuðust út í náttúruna og fjallahringinn út við sjóndeildarhringinn. Þunn þakplata samhliða hlíðinni sameinaði þau síðan öll. Langt frá því að þröngva evrópskum gildum síð-iðnþróunar, var hér byggingarlist sem lagaði sig að og blandaði ólíka heima. Þannig lagði hún sig að mörkum við að koma í veg fyrir nokkurs konar útilokun og notaði efniviði sem voru til staðar til þess að geyma menningu og hefðir staðarins.
Einbýlishús Eilu er tákn um mikilvægi samhengisins, að nota það sem er til staðar og ber vitni um hvernig samtvinnun efna og rýma, eiginleika og áferða endurspeglar lífsstíl og menningu. Menningu, svo göfuga og framandi okkar vestrænu aðstæðum. Nálgun arkitektanna sýndi svo mikið næmi að hún opnaði allar gáttir skynfæranna.

Ljósmyndir: Heikkinen+Komonen
Myndatexti:
a. Mikko Heikkinen (f. 1949) og Markku Komonen (f. 1945).
b+d. Undir þunnri þakplötunni er herbergjum hússins raðað í stakar einingar þannig að góð loftræsting fari um þau í gegnum gluggana sem standa á móti hver öðrum.
c. Hefðbundin vinnukraftur vann að gerð efnabundnu moldarkubbanna.
e+f.Einstök áhrif bambusveggjarins til austurs er líkt og horft sé í gegnum næfur þunna blæju sem geislar morgunsólarinnar breiðast um.
g+h+i. Innri rými húss Eilu (1995) eru jafn göfug og markmið Indigo-stofnunarinnar.